Háskólar landsins kynna náms- framboð sitt fyrir næsta skólaár

Háskólar landsins kynna námsframboð sitt fyrir næsta skólaár laugardaginn 19. febrúar nk. frá kl. 11-16. Kynningin fer fram á þremur stöðum í borginni; í Ráðhúsi Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Nemendur háskólanna, kennarar og námsráðgjafar taka á móti gestum og miðla af reynslu sinni. Einnig verður kynnt margskonar þjónustustarfsemi við nemendur.  

Búast má við því að yfir 3.000 gestir sæki námskynningu háskólanna þennan dag því fjölmargir óska eftir að fá þá persónulegu ráðgjöf sem þarna býðst. Margir gestanna eru að taka einhverja stærstu ákvörðun ævinnar, möguleikarnir eru margir og skiptir máli að vanda valið. Gott tækifæri gefst til þess á þessum sameiginlega kynningardegi þar sem kynntar eru yfir 500 mismunandi námsleiðir.

Ráðhús Reykjavíkur

Í Ráðhúsi Reykjavíkur kynna 4 íslenskir háskólar fjölbreytt námsframboð á grunn- og meistarastigi:

  • Háskólinn á Akureyri
  • Háskólinn á Hólum
  • Landbúnaðarháskóli Íslands
  • Listaháskóli Íslands.

Í Ráðhúsinu verður ennfremur hægt að kynna sér námsframboð danskra og sænskra háskóla. Námsframboð þessara skóla er, eins og nöfn þeirra bera með sér, ákaflega fjölbreytt og spannar allt frá hrossarækt og myndlist yfir í hefðbundnari greinar háskólanáms á borð við viðskiptafræði og lögfræði. Kennarar, nemendur og námsráðgjafar verða á staðnum og veita upplýsingar um allt nám sem þessir skólar bjóða.

Háskóli Íslands á Háskólatorginu - Gimli og Odda

Á Háskólatorgi Háskóla Íslands, og í Gimli og Odda kynna allar deildir Háskóla Íslands námsframboð sitt í grunnnámi og skipta námsleiðir hundruðum. Námsráðgjafar veita leiðsögn og ráðgjöf og fjölmargar þjónustustofnanir kynna starfsemi sína. Kynningin í Háskóla Íslands er öllum opin og gestum velkomið að skoða húsakynni skólans.

Háskólinn í Reykjavík í Nauthólsvík

Háskólinn í Reykjavík kynnir námsframboð sitt í öllum deildum skólans, grunnnám, meistaranám og doktorsnám. Kennarar, nemendur, námsráðgjafar og annað starfsfólk skólans veita ráðgjöf og hægt verður að skoða húsakynni skólans í Nauthólsvík. Rannsóknir fræðimanna við HR verða kynntar og uppákomur af margvíslegu tagi verða á göngum skólans. Ókeypis strætóferðir verða á milli staðanna þriggja allan daginn.

Háskólarnir verða svo með kynningu á Verkmenntaskólanum á Akureyri miðvikudaginn 2. mars nk. frá kl. 11:00 - 13:30.

Nýjast