30. nóvember, 2007 - 16:06
Halldór Rafnsson var endurkjörinn formaður Golfklúbbs Akureyrar á aðalfundi klúbbsins að Jaðri í gærkvöld en fundinn sóttu um 70 manns. Hagnaður af rekstri GA á síðasta rekstrarári nam 7,3 milljónum króna eftir fjármagnsliði. Miklar framkvæmdir standa yfir og eru fyrirhugaðar á Jaðarsvelli og fyrr á árinu var skrifað undir samning við Akureyrarbæ um lagfæringar á vellinum að upphæð 229 milljónir króna. Árni Jónsson hefur látið af starfi aðalkennara GA og við stöðu hans tekur David Barnwell, sem áður hefur starfað sem golfkennari hjá klúbbnum. Árni hefur þó ekki sagt skilið við golfkennslu þótt þessi breyting hafi orðið. Á aðalfundinum var þremur einstaklingum veitt silfurmerki klúbbsins, Haraldi Sigurðssyni, Ómari Halldórssyni og Kristni Svanbergssyni. Afreksmerki GA fékk Viðar Þorsteinsson og Brynjar Bjarkason fékk farandbikar sem veittur var í fyrsta sinn en hann er Holumeistari GA 2007. Þá var Petreu Jónasdóttur veittur háttvísibikarinn en hann er veittur þeim unglingi sem uppfyllir kröfur um háttvísi, prúðmennsku og framfarir í golfþíþróttinni. Petrea er Akureyrarmeistari í sínum flokki 14-16 ára. Og hún varð í 8 sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Kylfingur GA 2007 var einnig kjörinn og fyrir valinu varð Björn Guðmundsson. Bikar þessi var veittur í fyrsta sinn en hann var gefinn af Ómari Halldórssyni, sem unnið hefur marga sigra í golfinu í gegnum árin og átt sæti í unglingalandsliði og landsliði Íslands, ásamt því að verða Evrópumeistari unglinga árið 1997. Titillinn Kylfingur ársins kemur til vegna breytinga á vali á Íþróttamanni ársins hjá ÍBA/ÍRA. Björn hefur sýnt miklar framfarir á árinu og unnið marga sigra og tekið þátt í ótalmörgum mótum bæði hér heima og erlendis. Hann á sæti bæði í unglingalandsliði GSÍ og einnig landsliði fullorðinna Team Iceland. Björn er Akureyrarmeistari 2007, hann varð annar á Íslandsmóti í holukeppni unglinga, 11. sæti á Íslandsmóti í höggleik unglinga og 15. sæti á Íslandsmóti fullorðinna.