Hafró leggur til 125 þúsund tonna viðbótarkvóta í loðnu

Hafrannsóknastofnuninn leggur til að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði aukinn um 125 þúsund tonn eða úr 200 þúsund í 325 þúsund tonn. Útreikningar á stærð veiðistofnsins sem byggja á mælingum undanfarnar tvær vikur sýna að alls mældust 720 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Fyrri mælingar gáfu til kynna að veiðistofninn væri 600 þúsund tonn.  

Frá 6. - 22. janúar hefur rs. Árni Friðriksson verið við rannsóknir og mælingar á stærð loðnustofnsins frá Suðausturlandi, norður um og allt að sunnanverðum Vestfjörðum. Útbreiðsla loðnunnar hefur verið könnuð og stærð loðnustofnsins á því svæði verið mæld. Fyrstu dagana komu jafnframt 5 veiðiskip að því að kanna útbreiðslu loðnunnar út af Austfjörðum og Norðurlandi. Útreikningar á stærð veiðistofnsins sem byggja á þessum mælingum sýna að alls mældust 720 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Áður en ofangreind mæling fór fram er áætlað að veidd hafi verið rúm 5 þús. tonn af loðnu og því er áætluð stærð stofnsins nú, að meðtöldum þeim afla um 725 þúsund tonn.

Eins og kunnugt er var stærð stofnsins mæld rúm 600 þús. tonn dagana 24. september til 8. nóvember 2010. Í kjölfar þeirrar mælingar lagði Hafrannsóknastofnunin til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2010/2011 yrði ákveðinn 200 þúsund tonn. Í ljósi þess að gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar og á grundvelli ofangreindra mælinga í janúar 2011 leggur Hafrannsóknastofnunin til að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2010/2011 verði ákveðinn 325 þúsund tonn. Er það 125 þúsund tonna aukning frá fyrri tillögu, segir á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Nýjast