„Við höfum núna í haust verið að vinna trjáboli sem til féllu við grisjun sumarsins í Kjarnaskógi. Sumt af efninu nýtist til kurl- og eldiviðarframleiðslu en besta efnið er nýtt til framleiðslu á hvers konar borðviði,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Félagið hefur staðið fyrir skógrækt í héraði í næstum 100 ár. Ræktun skógarplanta og gróðursetning þeirra var meginverkefni félagsins fyrstu áratugina en hirðing skóglenda og nýting afurða verður æ stærri hluti starfseminnar.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið ötullega að því að saga niður borðvið, í kílómetravís segir Ingi, en hann verður nýtt til að setja upp snjósöfnunargirðingar, „hjá vinum okkar í Hlíðarfjalli,“ eins og hann orðar það.
Beggja hagur
„Kjarnaskógur og Hlíðarfjall eru verðmæt lýðheilsumannvirki bæjarbúa og kennileyti sem flest landsfólk þekkir. Við erum afar glöð að notaður sé efniviður úr héraði og það hjálpar okkur að sinna umhirðu skóganna okkar svo þeir dafni til framtíðar. Kolefnisspor er jafnframt mun jákvæðara en við notkun á innfluttum plastgirðingum og náttúrulegt útlit girðinganna á jafnframt vonandi eftir að auka hróður og hag beggja og gleðja gestina í fjallinu,“ segir Ingi.
Aðstaða til viðarvinnslu mikilvæg
Undanfarinn áratug hefur Skógræktarfélagið verið að koma sér upp aðstöðu til viðarvinnslu en hún er forsenda þess að hægt er að kosta grisjun skóglenda félagsins. Starfsfólk félagsins starfar við grisjun en einnig eru verktakar ráðnir til verksins, m.a. voru lettneskir skógarverktakar með öflugar og góðar skógarhöggsvélar að störfum í Kjarnaskógi á liðnu sumri. „Þetta voru afbragðsmenn sem grisjuðu rúma tvo hektara af skógi sem við nýtum í kurl, eldivið og borðvið.,“ segir Ingi.
Minna grisjað vegna stöðvunar hjá PCC
Til stóð að grisja mun meira en raunin varð á nú síðastliðið sumar, en vinnslustöðvun hjá PCC á Bakka gerði að verkum að heldur var dregið út þetta sumarið, þar sem stöðvunin takmarkaði afsetningu hluta þess efnis sem til fellur.
„Við vonum að þau geti þó fljótlega trekkt verksmiðjuna í gang aftur því það er mikils virði, ekki bara fyrir okkur heldur alla skógarbændur á svæðinu að hafa kaupanda að verðminna timbri sem oft er helmingur af því sem fellur til við grisjun skógar.“