Reykjavík International Games fóru fram um sl. helgi í fjórða sinn. Um alþjóðlegt mót er að ræða þar sem keppt er í 12 íþróttagreinum og var heildarfjöldi keppenda um 2000 manns, þar af á fjórða hundrað erlendra keppenda frá 17 löndum.
Norðlenskt íþróttafólk gerði fína hluti á mótinu í hinum ýmsu greinum. UFA átti fimm keppendur á mótinu og þar náðust tvenn gullverðlaun. Bjarki Gíslason sigraði í stangarstökki og Bjartmar Örnuson í 800 m hlaupi. Þá varð Elvar Örn Sigurðsson í öðru sæti í stangarstökki og Heiðrún Dís Stefánsdóttir náði þriðja sætinu í 400 m hlaupi.
Einnig var keppt í júdó á mótinu og þar sigraði Helga Hansdóttir frá KA í sínum flokki með miklum yfirburðum. Þá var hún einnig valin júdókona mótsins og því enn ein viðurkenningin sem þessi efnilega júdókona fær. Listhlaupadeild SA lét sig ekki vanta á mótið en þar keppti Hrafnhildur Lára Hildudóttir í Novice B og sigraði sinn flokk.
Sundið var einnig fyrirferðarmikið en bæði var keppt í flokki fatlaðra og ófatlaðra á mótinu. Fjórir keppendur frá Óðni kepptu í flokki fatlaðra. Vilhelm Hafþórsson vann fern silfurverðlaun, í 50, 100 og 200 m skriðsundi og 50 m flugsundi. Jón Gunnar Halldórsson vann gullverðlaun í 100 m bringusundi og brons í 50 m flugsundi, Lilja Rún Halldórsdóttir vann silfurverðlaun í 100 m bringusundi og 100 m skriðsundi og bronsverðlaun í 200 m skriðsundi og 50 m flugsundi. Þá vann Breki Arnarsson sér inn silfurverðlaun í 50 og 100 m baksundi og bronsverðlaun í 100 m skriðsundi.
Í opnum flokki ófatlaðra náði Bryndís Rún Hansen í tvenn gullverðlaun í 50 og 100 m flugsundi, silfurverðlaun í 100 m bringusundi og brons í 50 m skriðsundi. Þá var hún jafnframt fimmti stigahæsti sundmaðurinn á mótinu.
Í flokki 14 ára og yngri unnu þrír sundmenn Óðins til verðlauna. Birkir Léo Brynjarsson vann gull í 50 m skriðsundi, silfur í 200 m fjórsundi og brons í 50 m flugsundi og í 100 og 400 m skriðsundi. Kári Ármannsson sigraði í 50 bringusundi og vann silfurverðlaun í 100 og 200 m bringusundi. Loks vann Nanna Björk Barkardóttir fern bronsverðlaun, í 50, 100 og 200 m bringusundi og 50 m flugsundi.