„Söfnun muna eftir Margréti Jónsdóttur gengur mjög vel og við erum hæstánægð með móttökurnar,“ segir Hlynur F. Þormóðsson kynningar- og viðburðastjóri Listasafnsins á Akureyri.
Safnið setur upp sýningu á verkum eftir Margréti í tilefni af 40 ára ferli hennar við listsköpun. Óskað var eftir að almenningur legði safninu til muni og létu góð viðbrögð ekki á sér standa.
Gaman að finna þennan velvilja
„Við bjuggumst við góðum viðbrögðum frá Akureyringum, en það sem kemur okkur skemmtilega á óvart eru hversu viðbrögðin hafa verið góð að sunnan og fólk er að bjóðast til að koma verkunum til okkar á sinn kostnað eða með sinni fyrirhöfn,“ segir Hlynur. Þó svo að Margrét sé vissulega landsþekkt sé gaman að finna þennan velvilja. „Við tökum við öllum munum – stórum sem smáum – frá öllum tímabilum á ferli Margrétar, sem nú spannar 40 ár.“
Tekið er við listmunum í afgreiðslu Listasafnins á afgreiðslutíma kl. 12-17 og gerður verður lánssamningur við eigendur. Sýning verður opnuð fimmtudagskvöldið 5. júní kl. 20.00 ásamt samsýningu norðlenskra myndlistarmanna, Mitt rými.“