30. nóvember, 2007 - 21:55
Nú stendur yfir í Íþróttahöllinni á Akureyri árshátíð Menntaskólans á Akureyri, þar sem hátt í eitt þúsund manns, nemendur, kennarar og starfsfólk, skemmta sér saman á stærstu vímulausu hátíð sem haldin er árlega á Íslandi. Hátíðin er glæsileg og prúðbúnir árshátíðargestir enn glæsilegri. Hugtakið vímulaus hátíð þýðir í Menntaskólanum á Akureyri að þátttakendur hvorki neyta áfengis eða annarra vímugjafa á hátíðinni né koma þangað eftir að hafa neytt þeirra annars staðar. Nemendur MA telja það forréttindi að fá tækifæri til að njóta vímulausrar stórhátíðar þegar eðlilegt er talið að fólk á þessum aldri skemmti sér með öðru móti. Undirbúningur hátíðarinnar var í höndum nemenda sjálfra og hefur staðið í nokkrar vikur. Tugir nemenda sáu um skreytingar og margir hópar nemenda unnu að því að semja og æfa alls kyns skemmtiefni, hljóðfæraleik, dans, söng og leik. Aðrir hópar sáu um að skipuleggja veislusalinn í Höllinni, leggja á borð og skreyta, tæknimenn sjá til þess að allir fái notið þess sem í boði er. Öll þessi störf voru undir regnhlíf stjórnar Hugins, skólafélags MA en formaður félagsins, inspector scholae, er Vilhjálmur Bergmann Bragason. Í ár er 80 ára afmæli skólafélagsins Hugins og því var lagt enn meira í undirbúning en venjulega. Að loknu borðhaldi tekur við skemmtidagskrá en kvöldinu lýkur svo með dansleik en þar leikur hljómsveitin Gus Gus fyrir dansi í aðalsal, en Þuríður formaður og hásetarnir leika fyrir gömlum dönsum á efri hæðinni.