Gestasýningin Jesús litli frá Borgarleikhúsinu sýnd í Hofi

Gestasýningin Jesús litli, frá Borgarleikhúsinu, verður sýnd í Hofi frá 15. janúar á vegum Leikfélags Akureyrar og einungis í takmarkaðan tíma. Miðasala er í fullum gangi og er orðið uppselt á margar sýninganna. Það er því vissara fyrir fólk að hafa hraðan á og panta miða strax. Jesús litli var ótvíræður sigurvegari Íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar nú í vor. Jesús litli var valin sýning ársins og leikverkið sjálft var valið leikrit ársins auk þess sem sýningin hlaut sjö tilnefningar.  

Gagnrýnendur hlóðu sýninguna lofi og áhorfendur voru djúpt snortnir. Sumsé: Leikhús eins og það gerist best! Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig Palestínu og Heródes er settur landstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu gefur hann út tilskipun um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Og trúðarnir dásamlegu spyrja: Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástand? Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt en það er ekki síður átakanlegt. Trúðarnir láta allt flakka umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi; þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann - og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

Höfundar: Benedikt Erlingsson, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Snorri Freyr Hilmarsson
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing: Kjartan Þórisson
Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir
Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Kristjana Stefánsdóttir

Umfjöllun:
„Þetta er það langbesta sem sést hefur á fjölum leikhúsanna í haust." JVJ DV
„Ég skora á fólk að fara í leikhúsið og sjá Jesús litla" GM Mbl.
„Ástarþökk fyrir ógleymanlegt kvöld" SA TMM

Nýjast