Gamla fréttin að þessu sinni er úr Degi sem kom út 6. september 1978. Fréttin er um húsnæðisvanda á Akureyri og er athyglisvert hversu margt í henni rímar við húsnæðisvandann sem er uppi í dag víða um land.
„Ég veit til þess að maður sem var á lista hjá okkur tók þann kostinn að búa í tjaldi meðan leitað var að húsnæði, enda stóð hann á götunni. Einnig veit ég fjölda mörg dæmi þess að orðið hefur að leysa upp fjölskyldur meðan leit að húsnæði stóð yfir," sagði Jón Björnsson, félagsmálastjóri Akureyrarbæjar. „Þá er það ekki óalgengt að fólk, sem ætlaði að vinna og setjast að á Akureyri, hefur snúið frá, þar sem ekkert húsnæði var að fá."
Áður hefur verið á það bent í Degi að mikill skortur er á leiguhúsnæði á Akureyri og sömu sögu má raunar segja um suma nágrannabæi Akureyrar. Skorturinn er slíkur að enginn hefur séð sér hag í að opna leigumiðlun, en það er e.t.v. augljósasta merki þess að það er ekki um auðugan garð að gresja í þessum efnum á Akureyri. Hins vegar hlýtur að vera til mikið af ónotuðu, eða vannýttu, húsnæði á Akureyri, því bærinn hefur stækkað gífurlega á undanförnum árum og mun meira en íbúafjölgunin segir til um.
Til þess að fá grófa mynd af ástandinu töldum við viðkomandi smáauglýsingar í sex tölublöðum Dags og kom þá í ljós að 51 aðili óskaði eftir íbúð og 9 báðu um herbergi. Á sama tíma bauðst ein íbúð, án þess að farið væri fram á fyrirframgreiðslu, og tveir leigusalar fóru fram á tilboð án þess að tilvonandi leigutaka væri boðið að sjá íbúðina. Í þessum sex tölublöðum var ekkert herbergi auglýst til leigu.
Jón Björnsson sagði að fjölmargir aðilar leituðu til Félagsmálastofnunarinnar, en hún hefur í dag yfir 43 íbúðum að ráða og býr u.þ.b. 136 manns í þeim. Meðalaldur íbúðanna er hár, yfir 50 ár, og aðeins sex þeirra voru byggðar eftir 1950.
Töluvert hefur verið fjallað um þennan vanda hjá Félagsmálastofnuninni og sagði Jón það skoðun sína að heppilegast væri að sveitarstjórnir ættu töluvert magn af íbúðum, sem hægt væri að bjóða til leigu í skamman tíma. „Ég á t.d. við fólk sem er að flytjast í bæinn, en það væri gott að geta boðið því trygga leigu í 2-3 ár eða á meðan það er að hugsa sig um eða festa kaup á íbúð. Sama máli gegnir um ungar fjölskyldur sem eru að byrja búskap. Þetta fólk verður oft að steypa sér út í miklar fjárfestingar áður en fjölskyldulífið er orðið traust. Þá er til fólk sem verður að selja sínar íbúðir m.a. vegna þess að það er að byggja nýjar og vantar fé til að fjármagna þær. Auk þess eru það aldrað fólk og öryrkjar sem ekki er ætlandi að gera þá fjárfestingu sem bygging nýs húsnæðis er, en þarf engu að síður að geta gengið að öruggri leigu."
„Hér í bæ hlýtur að vera til mikið af lítt nýttu rými í íbúðarhúsnæði og það eru til ráð til að nýta það betur. Algengt er að venjuleg fjölskylda byggi yfir sig húsnæði í upphafi búskapar, sem reynist svo óþægilega stórt og dýrt í rekstri, þegar börnin eru farin að heiman eftir einhvern árafjölda. Hjónin vilja þá ekki leigja sér minna húsnæði, því leigumarkaðurinn er ótryggur og þau vilja ekki heldur byggja vegna kostnaðar og erfiðleika sem eru því samfara. Það væri hugsanlegur möguleiki að opinber aðili gengdi nokkurskonar hlutverki miðlara í þessu tilfelli. Ég geri ráð fyrir að fjöldinn allur yrði fús að skipta væri boðið upp á litla íbúð á góðum stað í bænum. Þetta yrðu að vera þægilegar íbúðir, sniðnar að þörfum þessa hóps sem fer sífellt stækkandi. Með þessum hætti losnuðu hús sem kæmu að góðum notum fyrir stórar fjölskyldur og hægt væri að jafna aldursdreifinguna, sem er orðin nokkuð ójöfn í bænum." EPE