Við erum þessa dagana að sprengja niður klöpp í forskeringu og er áætlað að þeirri vinnu ljúki í næstu viku, jafnframt er unnið að bergstyrkingu á stafninum þar sem göngin fara inn í fjallið. Þetta er gert með því að bora og festa bergbolta og steypu sprautað á bergvegginn. Þá er unnið að því að koma upp aðstöðu Eyjafjarðarmegin, þannig að þetta er allt saman á réttri leið, segir Valgeir Bergmann Magnússon framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.
Hann segir ekki hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær fyrsta hleðslan í göngunum verður sprengd.
Við vorum að tala um miðjan júlí, en eins og staðan er í dag er líklegra að það verði eitthvað fyrr, líklega í byjun júlí.
Valgeir vill brýna fyrir ökumönnum að sýna aðgæslu á svæðinu.
Við höfum sett niður nokkur aðvörunarskilti, þar sem fram kemur að um sé að ræða vinnusvæði. Eðlilega hefur fólk áhuga á þessum framkvæmdum og þess vegna er mikilvægt að ökumenn fari varlega og viljum við ekki að ökutæki séu stöðvuð eða lagt út í vegkanti á vinnusvæðinu til að fylgjast með þeirri vinnu sem þarna fer fram, því það getur bara skapað hættu fyrir alla.