Hið árlega HönnunarÞing, hátíð hönnunar og nýsköpunar fer fram dagana 26. – 27. september á Stéttinni á Húsavík . Í ár er áherslan á mat og margvíslega snerti fleti hönnunar og matargerðar.
„Þetta verður skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt. Við erum afar spennt að sameina fjölbreytta sýn hönnuða, frumkvöðla og matreiðslufólks og bjóða gestum að kanna hvernig form, bragð og framtíðarsýn blandast saman í einstaka upplifun. Við fögnum hugmyndum sem vekja skilningarvitin, örva sköpunargleðina og bjóða upp á nýjar leiðir til að sjá og skynja heiminn,“ segir Stefán Pétur Sólveigarsson, verkefnastjóri Hraðsins, Nýsköpunarmiðstöðvar Húsavíkur, og Fab Lab Húsavíkur en hann er mikill ástríðukokkur sjálfur og kveðst hlakka mjög til að upplifa þemað í ár.
Á dagskránni eru meðal annars vöruhönnuðir, súkkulaðiframleiðendur, náttúruvín, ostasérfræðingur, samfélagsgróðurhús, skordýraprótein, rithöfundar, umbúðahönnuðir, aðilar frá LHÍ, sniglarækt, dans, sjóböð, stórkostlegt tónlistarfólk og margt fleira. Fjölbreyttir þræðir skapandi huga sem búið er að spinna saman í vef HönnunarÞings 2025 á Húsavík.
„Þetta er í þriðja sinn sem við höldum HönnunarÞing á Húsavík og erum sífellt að verða betri í því. Í ár erum við að tala um hönnun, nýsköpun og mat,“ segir Stefán og leggur áherslu á að hátíðin sé öllum opin og öll ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. „Þetta er gjörsamlega fyrir alla, ekki bara hönnuði eða matspekinga. Þetta er bara fyrir allt fólk sem vill upplifa eitthvað einstakt og það verður nóg af því á boðstólum á HönnunaÞingi,“ segir Stefán en boðið verður upp á einstaklega fjölbreytta dagskrá í ár og veitingastaðir bæjarins taka að sjálfsögðu fullan þátt með spennandi matseðlum.
„Við verðum með alls konar fyrirlestra, upplifanir og fleira þar sem megin þemað er matur í víðum skilningi. Það er verið að tala um ný prótein, hvað við erum að fara borða í framtíðinni. Það verður áhugaverð kynning á sniglarækt sem spennandi viðbót við íslenskan landbúnað. Ég er líka spenntur fyrir kynningu á nýju eiturefnalausu hlaupi. Svo verður líka slegið á létta strengi m.a. með keppni í að grilla sykurpúða og glæsilegt eldstæði í verðlaun. Svo verða fulltrúar frá súkkulaðiframleiðandanum Omnon sem munu kynna alla hönnunina í kringum súkkulaðið þeirra,“ segir Stefán.
Omnom er eina súkkulaðigerðin á Íslandi sem sérhæfir sig í ,,baun í bita” súkkulaði og einungis hágæða kakóbaunir eru notaðar. Omnom leggur ofuráherslu á hönnun í öllu sem þau gera. Listaháskóli Íslands og Omnom munu vinna saman að nýjum hugmyndum á HönnunarÞingi.
Þá ber að geta að aðdáendur götubita fá heldur betur upplifun því Biggi Burger Jesus, sigurvegari Götubitans 2024 og silfurverðlaunahafi 2025, einnig kenndur við Brixton kemur og mun sjá til þess að alvöru götubiti og BBQ úr öðrum veruleika mun dansa á braðlaukum gesta, en með honum í bás verður Steini á Húsavík öl sem mun brynna í takt við götubitann.
„Það verður bara alls konar skemmtilegt um að vera. Ég gæti haldið áfram að telja upp endalaust. Það sem við erum einna spenntust fyrir er að allir veitingastaðirnir sem erum með opið á þessum tíma á Húsavík verða með sérstaka matseðla. Elda matinn á nýjan hátt, vinna með ný prótein og allskonar spennandi nýjungar,“ segir Stefán Pétur að lokum.
Þess ber að geta að aðgangur er frír á alla viðburði Hönnunarþings nema á þann sem haldinn verður í og í samvinnu við Geosea á Húsavík en enginn annar en Mugison mun trylla gesti sjóbaðanna á lokakvöldinu.