Ég hef mikla trú á Oddi Helga Halldórssyni stofnanda og leiðtoga L- listans á Akureyri. Hann hefur ávallt komið mér fyrir sjónir sem jarðbundinn og heiðarlegur stjórnmálamaður. Á dögunum fór forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson fram á það við Akureyrarbæ að haldinn yrði sérstakur upplýsingafundur um afleiðingar þess að breyta kvótakerfinu í sjávarútvegi, sem brýtur í bága við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Að sjálfsögðu varð Oddur Helgi við bón Þorsteins Más, en orð fer af því hversu harðdrægur útgerðarmaður hann er og sleipur í kvótafrumskóginum, þó svo að hann hafi vissulega misstigið sig illilega í bankabraskinu en það gerðu víst fleiri.
Ég reikna með því Oddur Helgi veiti á fundinum haldgóðar upplýsingar um hversu Eyfirðingar hafa farið illa út úr Kvótakerfinu í sjávarútvegi og þá er ég ekki einungis að benda á hversu verstöðvarnar Hrísey og Grenivík hafa látið á sjá heldur einnig sjálf Akureyri.
Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafa Eyfirðingar farið sérstaklega illa út úr "þróun og meintri hagræðingu" kvótakerfisins frá árinu 1993. Landaður botnfiskafli á Akureyri hefur dregist saman um liðlega 67% frá árinu 1993, samkvæmt opinberum gögnum Fiskistofu. Hrísey og Grenivík hafa farið enn verr út úr kvótakerfinu en landaður afli í byggðalögunum hefur dregist saman annars vegar um 77% og hins vegar 90%.
Ég er nokkuð viss um að þegar þessar sláandi upplýsingar verða ræddar fundinum í Hofi á Akureyri þá muni það verða til þess að ábyrgir sveitarstjórnarmenn og verkalýðsleiðtogar í Eyjafirði krefjist gagnrýnnar endurskoðunar á kvótakerfinu og sömuleiðis tafarlausra breytinga. Áframhaldandi skuldsetning og afturför sjávarútvegsins er óþolandi fyrir sjávarbyggðirnar og landsmenn alla.
Höfundur er líffræðingur.