Franz Árnason forstjóri Norðurorku tilkynnti á aðalfundi félagsins sl. föstudag, að hann myndi láta af störfum á
árinu. Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður stjórnar þakkaði Franz vel unninn störf í þágu Norðurorku og forvera hennar. Fram
kom í máli Geirs Kristins að afkoma félagsins væri mjög góð og afar ánægjulegt hve viðsnúningur til hins betra hefði
náðst síðastliðin tvö ár eftir mikið áfall í kjölfar bankahrunsins.
Á fundinum voru ársskýrsla og ársreikningar lagðir fram til afgreiðslu, kosin ný stjórn og varastjórn, tekin ákvörðun um
greiðslu arðs og önnur atriði sem samkvæmt samþykktum félagsins eiga að vera á dagskrá aðalfundar. Í stjórn
fyrirtækisins voru kosin Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Edward Hákon Huijbens, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir
og Njáll Trausti Friðbertsson.