Frekari dráttur á kjaraviðræðum og frágangi á kjarasamningum kemur illa við verkafólk sem nánast daglega þarf að taka á sig miklar og oft ósanngjarnar hækkanir á vöru og þjónustu. Kjarasamningar hafa nú verið lausir í 6 vikur og ekki er að sjá að þeim ljúki á næstunni. Við slíkt er ekki hægt að una.
Þá eru yfirlýsingar stjórnvalda um hófstillta kjarasamninga athyglisverðar í ljósi þess að stjórnvöld hafa markvisst aukið álögur og skatta á verkafólk þrátt fyrir að svigrúm þeirra sé ekkert til að taka á sig auknar byrðar. Því ættu stjórnvöld að hafa skilning á kröfum Starfsgreinasambands Íslands um 200.000,- króna lágmarkslaun á mánuði. Framsýn, stéttarfélag ítrekar kröfuna um að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum.