Kísilverið á Bakka hefur tilkynnt um tímabundna rekstrarstöðvun frá miðjum júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá PCC BakkiSilicon hf. í gærkvöld.
Um 80 manns verður sagt upp samhliða rekstarstöðvun.
Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og nýlegra raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Eins hafi ódýr innflutningur á niðurgreiddum kísilmálmi, sérstaklega frá Kína, haft mikil áhrif á markaðsverð á Íslandi. Er hann sagður með lakari sjálbærni og umhverfisstöðlum en sá sem framleiddur er á Bakka.
„Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hraði skoðun á markaðsaðstæðum sem fyrirtæki eins og PCC Bakki glíma við í ljósi áðurnefnds innflutnings. Líkt og greint hefur verið frá hefur fyrirtækið kært innflutning á kísilmálmi til Íslands á undirverði til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hefur málið nú til umfjöllunar. Eins hafa kísilmálmframleiðanda í Evrópuóskað eftir verndartollum til að koma í veg fyrir að framleiðsla í sambandinu, á þessum mikilvægu og strategísku málmum, leggist af með öllu,“ segir í tilkynningu.
Einnig er greint frá því að eftir rekstrarstöðvun verði unnið að umbótaverkefnum og að gera fyrirtækið í stakk búið til að hefja starfsemi að nýju með skömmum fyrirvara um leið og aðstæður leyfa.