Framkvæmdir við seinni áfanga Naustaskóla að hefjast

Í gær var undirritaður í Ráðhúsinu á Akureyri verksamningur Fasteigna Akureyrarbæjar við SS Byggi um uppsteypu og utanhússframfrágang vegna seinni áfanga byggingar Naustaskóla. Samninginn undirrituðu Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri SS Byggis. Sigurður sagði við það tækifæri að framkvæmdir hefjist á allra næstu dögum.  

Um er að ræða 3.900 m² byggingu sem mun hýsa heimasvæði, sérgreinastofur, starfsmannarými, sal/miðrými, anddyri skólans og íþróttahús. Reiknað er með að álma sem hýsir sérgreinastofur verði tekin í notkun haustið 2012 og að byggingu skólans verði að fullu lokið 2014. Framkvæmdahraði tekur mið af þörf fyrir skóla og leikskóla í hverfinu. Ákveðið var að bjóða út uppsteypu og utanhússfrágang á vordögum 2011 og uppsteypu skal lokið á árinu 2013. Í byrjun árs 2012 er áætlað að bjóða út innahússfrágang á kennsluálmunni í einnar hæðar byggingunni sem er um 900 m². Síðasti hlutinn hefur ekki verið tímasettur. Heildarkostnaður við seinni áfanga er áætlaður um 1.1 milljarður króna. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast