11. febrúar, 2008 - 19:23
Jón Ingi Cæsarsson, formaður nefndar um óshólma Eyjafjarðarár, segir það rangt hjá Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra GV
grafa að kenna nefndinni um að ekki standi til að taka efni í lengingu Akureyrarflugvallar úr Leirum Eyjafjarðarár. Jón Ingi segir að nefndin hafi
fengið til umsagnar skýrslu frá hönnuðum þar sem uppleggið var aðflutt efni og að hún hafi því aldrei þurft að taka
afstöðu til annars. Guðmundur gagnrýndi óshólmanefnd og sagði að nefndin væri hrædd og vanbúin til að að taka yfirvegaðar
ákvarðanir.
Í fundargerð skipulagsnefndar frá 12. desember sl. kemur m.a. fram að fyrir liggi svohljóðandi umsögn frá umhverfisnefnd/óshólmanefnd:
"Nefnd um verndarsvæði í óshólmum Eyjafjarðarár hefur kynnt sér gögn þau sem fram eru komin um fyrirhugaða lengingu Akureyrarflugvallar
og stækkun öryggissvæða. Nefndin fagnar að ekki verði ráðist í efnistöku úr Leirunum og aðeins notað aðflutt efni. Hún
gerir því ekki athugasemdir við fyrirhuguð áform um framkvæmdir við Akureyrarflugvöll." Guðmundur framkvæmdastjóri GV grafa sagði
í Vikudegi að hægt sé að spara 50-100 milljónir króna með því að nýta um 100.000 rúmmetra af sandi úr leirum
Eyjafjarðarár í væntanlega lengingu Akureyrarflugvallar. Hann segir jafnframt hægt að spara um 135 þúsund lítra af díselolíu.
Jón Ingi segir að ástæður þess að nefndin hafi ekki þurft að taka afstöðu til annars en er varðaði aðflutt efni séu
líklega þær að ferlið að fá efnið úr Leirunum sé mjög langt og ekki gefið að slíkt leyfi fengist. "Leirurnar eru á
skrá yfir verðmæt svæði með tilliti til lífríkis fugla og skilgreint sem verndarsvæði samkvæmt samkomulagi Eyjarfjarðarsveitar,
Akureyrar og Flugmálastjórnar, nú Flugstoða. Leirurnar eru ekki efnistökusvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar."
Jón Ingi sagði að ef vilji hefði verið til að fá leyfi til efnistöku hefði orðið að fara í að breyta aðalskipulagi
Eyjarfjarðarsveitar og Akureyrar, gera nýtt deiliskipulag fyrir óshólma Eyjafjarðarár, sækja um leyfi umhverfisyfirvalda til að opna nýjar
efnistökunámur, senda framkvæmdina í umhverfismat og fá leyfi umhverfisráðuneytis til að hefja þarna efnistöku. Þetta ferli hefið
getað tekið eitt til tvö ár og ekki gefið að tilskilin leyfi hefðu fengist. "Framkvæmdaraðilum var því ljóst að ef farin yrði
sú leið að leitast við að nota efni úr Leirunum, hefði lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar ekki hafist fyrr en í fyrsta lagi 2009, jafnvel ekki fyrr en
2010 og því valdi samgönguráðuneyti og Flugstoðir að nota aðflutt efni. Í það minnsta er það skýring mín sem formanns
óshólmanefndarinnar," sagði Jón Ingi.