Forinnritun í framhaldsskóla veldur óhagræði í VMA

Forinnritun í framhaldsskóla lauk um mánaðamótin og þá var ljóst að 454 höfðu valið Verkmenntaskólann á Akureyri.  Hjalti Jón Sveinsson skólameistari VMA segir að forinnritun sé fyrst og fremst hugsuð til að jafna nemendum niður á framhaldsskóla í Reykjavík.  

„Hún veldur okkur aftur á móti miklu óhagræði. Þannig er að allir nemendur verða að velja tvo skóla og setja þá í fyrsta eða annað sætið. Það eina sem við vitum er að 454 hafa valið VMA; en við vitum ekki hvort hann er í fyrsta eða öðru sæti eða hver hinn skólinn er sem viðkomandi hefur sótt um vist í," segir Hjalti Jón.

Hann segir að fyrirkomulagið geri skólanum mjög erfitt fyrir með undirbúning næsta skólaárs enda verði komið talsvert fram í júní þegar hann loksins fái í hendur lokaniðurstöðuna frá ráðuneytinu. „Við gerum ráð fyrir að geta tekið við álíka mörgum nemendum í skólann í haust eins og undanfarin ár; og farið af stað með 1250-1300 nemendur en þar af hafa nýnemar úr 10. bekk grunnskóla verið um og yfir 200."

Nýjast