Fjórum starfsmönnum Vínbúðarinnar á Akureyri sagt upp

Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

“Það sem rétt er í þessu er að fjórum starfsmönnum í tímavinnu var sagt upp í síðustu viku. Í kjölfarið sagði einn fastráðinn starfsmaður upp störfum. Við getum að öðru leyti ekki tjáð okkur um efni uppsagnanna. Í kjölfarið voru gerðar ráðstafanir þannig að engin sérstök vandamál hafa skapast í mönnun Vínbúðarinnar,” sagði Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR, í svari við fyrirspurn Vikudags um uppsagnir í Vínbúðinni í Akureyri.

 

Samkvæmt upplýsingum Vikudags var aðdragandi málsins sá að fjórir starfsmenn í tímavinnu voru boðaðir í Vínbúðina sl. miðvikudagsmorgun, þar sem þeir fengu afhent sín uppsagnarbréf og héldu þeir síðan á braut. Aðstoðarverslunarstjórinn til nokkurra ára var ekki sáttur við þessa afgreiðslu málsins og sagði upp störfum um kvöldið. Uppsögnin var staðfest á fimmtudagsmorgun og lét aðstoðarverslunarstjórinn strax af störfum. Nýráðinn verslunarstjóri á Akureyri mun vera í starfsþjálfun í Reykjavík og vera væntanlegur til starfa innan tíðar. Þeir starfsmenn sem fengu uppsagnarbréf í síðustu viku eru ekki sáttir með stöðu mála og hafa leitað til SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu, til að gæta hagsmuna sinna.

 

 

Nýjast