Fjórir frá VMA með bestan árangur á sveinsprófi

Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur hefur undanfarin ár efnt til verðlaunahátíðar nýsveina í Ráðhúsinu í Reykjavík. Fór hún fram að þessu sinni 4. febrúar sl. Þangað eru boðaðir þeir nýútskrifuðu sveinar í hinum ýmsu námsgreinum sem náð hafa bestum árangri á sveinsprófi á landsvísu á síðasta ári. Að þessu sinni voru fjórir fyrrum nemendur VMA á meðal verðlaunahafa og að sögn Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara er skólinn stoltur af þeim.  

Fyrrum VMA nemarnir sem hlutu verðlaun eru; Friðrik Óli Atlason, rafvirki, Ásgeir Ingi Óskarsson, vélvirki, Ásþór Sigurgeirsson, vélvirki og Gísli Gunnar Pétursson, rafvirki. Friðrik Óli hlaut einnig verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík sem fólgin er í frírri námsvist fyrsta skólaárið. Athöfnin í Ráðhúsinu var afar virðuleg að sögn Hjalta Jóns, þar sem forsvarsmenn hinna ýmsu iðngreina tóku til máls auk forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík.

Nýjast