Mikið verður um dýrðir þegar Forleikurinn 1812 eftir P. I. Tchaikovsky verður fluttur. Verkið sem er skrifað fyrir sinfóníuhljómsveit, kirkjuklukkur og 16 fallbyssur samdi Tchaikovsky til að minnast árásar Napóleons á Moskvu árið 1812 og sigur Rússa á her Napóleons. Forleikinn ætlar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að flytja með tilheyrandi fallbyssuskotum á sviðinu í Hofi. Sérlegur sprengjusérfræðingur kemur til liðs við hljómsveitina og slagverksleikari með stáltaugar sinna verkinu þegar á hólminn er komið. Þetta er í fyrsta sinn sem verkið er flutt með þessum hætti á Íslandi. Aðeins eru örfá sæti laus á tónleikana.
Söngleikurinn, Hárið, sem var frumsýndur í Hofi verður sýndur yfir páskana. Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið bætt við aukasýningum. Sýningin er á stóra sviðinu í Hamraborg þannig gestir sitja í mikilli nánd við leikarana á sviðinu. Hægt er að kaupa miða í sæti eða lautina en sama miðaverð er á báða staðina. Sætin eru umhverfis sviðið en ef þú pantar miða í lautina eru í þægindin í fyrirrúmi á teppum og púðum í nánd við leikarana og upplifir þannig hina sannkölluðu „Woodstock" stemningu.
Óskar Pétursson tekur á móti góðum gestum á tónleikum í Hofi á laugardagskvöldinu. Óbeislaður húmor og léttleiki verður í fyrirrúmi þó eitt og eitt vasaklútalag detti inn á milli. Gestir kvöldsins eru: Harpa Björk Birgisdóttir, Hjalti og Lára Sóley, Diddú og Ragnar Bjarnason. Hljómsveitarstjóri er Gunnar Þórðarson.
Á páskadag verður svo hinn vinsæli útvarpsþáttur Gestir út um allt sendur út frá Hofi. Gestir þáttarins verða Gunni Þórðar, Raggi Bjarna, Hannes og Helgi, Vindbelgurinn, ungir og efnilegir tónlistarmenn að norðan og leynigestur sem mun gleðja bæði augu og eyru! Við hvetjum alla til þess að mæta í Hof, milli kl. 13-15 og taka þátt í þessum skemmtilega mánaðarlega viðburði. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Þess má geta að veitingastaðurinn1862 Nordic bistro í Hofi verður opin alla páskana og Hrím hönnunarhús verður opið á skírdag, laugardag og páskadag.