Veitingastaðurinn Nings, sem býður upp á austurlenskan mat, gengur mjög vel að sögn Sigurðar Karls Jóhannssonar, eins af eigendum staðarins á Akureyri. Hann sagði að strax frá fyrsta degi sem staðurinn var opnaður, nánar tiltekið 1. mars, hafi viðtökurnar verið frábærar og t.a.m. hafi staðurinn ekki haft undan fyrstu vikurnar, en nú sé að sjálfsögðu búið að laga það. Hann bætti því við að nú þegar sé Nings með marga fastakúnna og staðurinn búinn að festa sig vel í sessi. Viðbót við staðinn er strax væntanleg að sögn Sigurðar en stefnt er að því að opna veisluþjónstu Nings í haust og þá eykst þjónustan enn frekar.
Hamborgarabúllan opnaði í lok janúar sl. og hefur reksturinn gengið vel að sögn Einars Geirssonar, sem er einn af eigendum staðarins. Hamborgarabúllan býður eins og nafnið gefur til kynna upp á ýmsar tegundir borgara auk meðlætis. Einar sagði að vissulega hafi verið mest að gera fyrstu vikurnar á meðan allir hafi verið að kynna sér staðinn en síðan þá hafi aðsóknin að staðnum verið mjög góð og haldist í góðu jafnvægi. Síðustu vikur hafi komið góðar söluhelgar enda mikill ferðamannastraumur í bæinn. Að lokum sagði Einar að Hamborgarabúllan væri svo sannarlega komin til að vera enda gangi reksturinn vel.