„Þetta var frábær ferð, við lifum lengi á henni,“ segir Vilberg Helgason einn forsprakka Reiðhjólaklúbbs Akureyrar um hjólaferð sem farin var um liðna helgi, frá Siglufirði, um Siglufjarðarskarð og Siglufjarðarveg til baka. Ferðafélag Akureyrar efndi til ferðarinnar og sá m.a. um að flutning hjóla milli staða, Akureyrar og Siglufjarðar.
Vilberg segir að um magnað svæði sé að ræða. „Við byrjuðum á Siglufirði og hjóluðum upp í skarðið í blíðskaparveðri, sól og hita, aðstæður voru eins og best verður á kosið og allir nutu í botn, veðurs og útsýnis. Þegar komið var yfir skarðið Skagafjarðarmegin tók við annars konar veðurlag, slagveðursrigning og hvassviðri en ágætur hiti. „Þetta voru mjög hressandi veðurbrigði, en menn láta þau ekki á sig fá. Það var bara gaman að takast á við þetta,“ segir hann.
Vissulega áskorun
Þegar niður var komið og búið að fara yfir snarbrattar skriður og stórbrotið landslag var hjólað á ný til Siglufjarðar. „Við höfðum vindinn í bakið þannig að segja má að hjólafólkið hafi runnið þægilega til baka og ferðin sóttist vel að Strákagöngum.. Margir höfðu ekki hjólað áður í gegnum jarðgöng þannig að þar bættist við annars konar og ný lífsreynsla. Þessi ferð var mikil upplifun frá upphafi til enda og verður ein af þeim eftirminnilegri. Vissulega áskorun og á stundum farið um háskalegt landslag en þá er um að gera að sýna varkárni sem allir þátttakendur voru meðvitaðir um.“
Æ vinsælla sport
Vilberg segir að hjólreiðar á rafhjólum verði vinsælli með hverju árinu sem líður og það sé af hinu góða. „Klúbburinn vex og dafnar í takt við aukinn áhuga. Við bjóðum að jafnaði upp á eina ferð í viku þar sem þeir sem vilja hjóla saman hinar ýmsu leiðir í bæjarlandinu eða nágrenni þess koma saman. Hjólaleiðir eru fjölbreyttar og skemmtilegar og það gefur ferðunum mikið gildi að hafa úr úrvalsleiðum í okkar bakgarði að velja.“ Misjafnt er hversu margir taka þátt í ferðum klúbbsins, eða frá 15 og upp í um 70 manns þegar mest er.
Vilberg segir fólk sækja í félagsskapinn enda ávallt góð stemmning í ferðum félagsins. Þá komi margir þeirra sem eru að hefja sinn rafhjólaferil með til að auka við sjálfstraust sitt í hjólaferðum og finna öryggið sem hópurinn býður upp á. „Við erum alltaf með alls kyns verkfæri meðferðs ef á þarf að halda og fólki þykir gott að vita af því. Svo eftir nokkrar ferðir með hópnum vex fólki ásmegin og það er tilbúið að fara á eigin vegum hvert sem er. En auðvitað hefur fólk líka gaman af því að hjóla saman sem hópur.“
Heilsubót og gerir öllum gott
Fólk á öllum aldri stundar hjólreiðar á rafmagnshjólum, en m.a. er talsvert um að rafhjól séu gefin í fermingargjafir og þá er eldra fólk í vaxandi mæli að hjóla. „Þetta er mikil heilsubót og gerir öllum gott. Ég veit af því að sjúkraþjálfarar segjast strax sjá það á fólki hvort það er hjólareiðafólk eður ei, það styrkjast allir á því að hjóla. Eins hefur Hjartaheill ráðlagt sínu fólki að hjóla, enda allra meina bót,“ segir Vilberg. „Það sé líka jákvætt að fólk geti hjólað saman þó það sé í mismunandi formi og það sé mikill kostur, t.d. þegar hjón byrja í sportinu en þá er ekki endilega víst að bæði séu í sama líkamlega ástandinu.“
Snjómokstur og skipting
Auk þess að vera mikil heilsubót eru auknar hjólreiðar góðar fyrir umhverfið. Fjölmargir kjósa að hjóla til og frá vinnu og fer sá hópur stækkandi ár frá ári. Vilberg segir að í ljósi þess sé talsverð pressa á sveitarfélagið að sinna snjómokstri af kostgæfni. „Bærinn á hrós skilið fyrir góðan mokstur yfir vetrarmánuðina, þar á bæ standa menn sig vel.“
Eins segir Vilberg nauðsynlegt að skipta stígum upp á milli gangandi og hjólandi fólk og hefur Akureyrarbær byrjað á því verkefni en mikið er eftir. „Það er ekki alltaf gott að blanda þessu saman, en bærinn er að bregðast við því að æ fleiri hafa tekið hjólin í notkun og það er vel.“
Þátttakendur voru um 40 talsins, sá yngsti 11 ára og sá elsti 75 ára . Báðir stóðu sig einkar vel. Fararstjóri var Jón M. Jónsson þrautreyndur rafhjólamaður.