Fann þrjár eftirlegukindur í Hlíðarfjalli

Björn Stefánsson frá Hesjuvöllum fann þrjár kindur, á með tvö lömb, neðarlega í Hlíðarfjalli sl. sunnudag. Hann var þar á ferð á vélsleða og var m.a. að skima eftir tófuförum þegar hann fann kindurnar. Björn fór svo sl. mánudag ásamt fjórum öðrum vélsleðamönnum til að sækja kindurnar. Vel gekk að reka kindurnar til byggða og þá kom í ljós að þær voru í frá Mið-Samtúni.  

Kindurnar voru vel á sig komnar og hinar hressustu, þrátt fyrir að verið úti í allan vetur í misjöfnu veðri. Ásgeir Valdimarsson hafði haft grun um að hann ætti kindurnar og hann var mættur til að taka á móti þeim þegar vélsleðamennirnir komu með þær til byggða. Kindurnar voru settar í jeppa Ásgeirs, sem ók þeim heim í Mið-Samtún, þar sem Einar Brynjólfsson tók á móti þeim.

Björn sagðist hafa verið að viðra sig í góða veðrinu á sunnudag þegar hann fann kindurnar og hann sagðist jafnan leita að tófuförum á ferðum sínum. "Ég rakst á kindurnar á hól niður undir girðingu og það voru för eftir tófu í kringum þær. Það er eitthvað af tófu í fjallinu en hún hefur nóg æti, m.a. er mikið af rjúpu þarna."

Björn sagði að það hefði ekki tekið nema um þrjú korter að reka kindurnar til byggða enda hefðu menn verið eingöngu á Arctic Cat vélsleðum og það hafi gert gæfumuninn. Björn sagðist hafa haldið að Ásgeir ætti kindurnar og Ásgeir var búinn að heita því, að ef hann ætti þær fengi Björn hrútinn reyktan í haust.

"Það spurning hvort það náist samningar við þá feðga í Samtúni að fá hrútinn í björgunarlaun og þá reyktan." Ásgeir nefndi það við Einar þegar hann kom með kindurnar í Mið-Samtún og hann var alveg reiðubúinn að láta Björn hafa hrútinn fyrir björgunina.

Nýjast