Fagna ákvörðun forseta Íslands vegna Icesave

Samtök þjóðar gegn Icesavefagna því að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hafi synjað lögum um Icesave staðfestingar og vísað málinu til þjóðarinnar. Íslenska þjóðin á nú kost á að taka afstöðu til ólögvarðra krafna Breta og Hollendinga á hendur sér. Í dag kl. 15:00 höfðu um 42.400 manns skrifað undir áskorun til forsetans á vefnum kjosum.is.  

Samtök þjóðar gegn Icesaveþakka öllum sem sýndu stuðning í verki og skrifuðu undir áskorun til þings og forseta um að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Samtökin færa forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, innilegar þakkir fyrir að hafa tekið á móti fulltrúum samtakanna og hlustað á rödd þjóðarinnar. Loks færa samtökin þeim þingmönnum sem studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu á Alþingi þakkir.

Föstudagskvöldið 11. febrúar kl. 22:15 hófst undirskriftasöfnun þar sem skorað var á forseta Íslands að synja lögum um Icesave staðfestingar. Á fimm og hálfum sólarhring skoruðu 37.488 Íslendingar á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar.

Hin sterku viðbrögð eru án fordæmis í sögu lýðveldisins.

Alþingi felldi tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu með naumum meirihluta. Þrjátíu þingmenn vildu vísa málinu til þjóðarinnar en 33 voru á móti. Í skoðanakönnun MMR kom fram að 62,1% Íslendinga vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjasta Icesave-samninginn gegn 37,9%. Liðlega 80% aðspurðra tóku afstöðu, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast