Erum klárir í slaginn og fullir tilhlökkunar

Bikarúrslitaleikurinn milli Akureyrar og Vals í handbolta karla fer fram í dag í Laugardalshöllinni kl. 16:00. Vikudagur sló á þráðinn til þjálfara beggja liða og heyrði í þeim í hljóðið fyrir þennan stærsta einstaka handboltaleik ársins. Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, segir sína menn vera klára í slaginn. „Við erum fullir tilhlökkunar og það er bara gaman að fá að taka þátt í svona leik,” segir Atli.

Allir leikmenn Akureyrarliðsins eru klárir, fyrir utan Geir Guðmundsson sem verður ekki meira með í vetur. Varnarjaxlinn Hreinn Þór Hauksson er kominn aftur inn í lið norðanmanna og er það mikill styrkur fyrir liðið. Oddur Gretarsson hvíldi í síðasta deildarleik vegna ökklameiðsla, en er tilbúinn fyrir leikinn á laugardaginn. En hvernig leggst bikarleikurinn í Atla?

„Þetta verður hörkuleikur. Valsmenn eru alltaf að bæta sig og eru með hörkufínt lið. Staða liðanna í deildinni skiptir engu máli þegar komið er í svona leik,” segir hann. Akureyringar hafa á ungu liði að skipa í bland við eldri leikmenn en Atli segist ekki hafa áhyggjur af reynsluleysi í liðinu. „Við höfum fullt af reynsluboltum inn á milli í okkar liði og þó við höfum ekki farið saman í svona leiki að þá höfum farið í sitthvoru lagi. Ég held að okkar reynsluboltar séu tilbúnir í þetta,” segir hann.

Atli vonast eftir því að stuðningsmenn Akureyrar fjölmenni suður á leikinn og styðji við bakið á sínu liði. „Það er gríðarlega mikilvægt að fá stuðning og væri gaman að fá góða stemmningu frá okkar fólki. Það væri flott að geta haft helming áhorfenda á okkar bandi,” segir Atli.

Þurfum að stoppa hraðaupphlaupin

„Þetta er það skemmtilegasta sem íþróttamenn og þjálfarar fá. Bæði þessi vika og leikurinn sjálfur,” segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. „Það verður gaman að mæta Akureyri og deildin segir allt um þeirra getu. Þeir eru að klára leikina, eru með góða vörn og leikmenn sem taka af skarið. Þeir verðskulda að vera á toppnum og það verður bara krefjandi og skemmtilegt verkefni að eiga við þá í þessum leik.”

Þrátt fyrir að Valur sé á leiðinni í fjórða bikarúrslitaleikinn í röð, segir Óskar að liðið hafi ekki mikla reynslu fram yfir Akureyrarliðið. „Við höfum misst marga leikmenn og liðið er mjög breytt. Þannig að ég held að liðin standi jafnfætis hvaða reynsluna skiptir. Það eru margir nýjir leikmenn í okkar liði sem eru að fara í bikarúrslit í fyrsta sinn.”

Valsmenn hafa tapað tvívegis fyrir Akureyri í deildinni í vetur. Óskar Bjarni segir að ýmislegt megi taka úr þeim leikjum sem nýtist liðinu á laugardaginn og segir lykilatriði að stoppa hraðaupphlaup norðanmanna.

„Við þurfum að spila mjög agaðan sóknarleik. Ef við erum að spila illa úr kerfunum eru þeir með besta hraðaupphlaupslið deildarinnar sem refsar grimmt. Það er því lykilatriði fyrir okkur að spila markvissan sóknarleik,” segir Óskar Bjarni. 

Nýjast