Erum hætt að deyja ung!

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Þessi rúmlega miðaldra sem þetta skrifar sat nýlega málstofu sem fjallaði um gervigreind í umönnun eldra fólks. Fram að því hafði hún ekki mikið leitt hugann að gervigreind og hvernig best er að nýta hana. Sú greinda hafði til þessa notað mig til að sýna mér endalaust í viðbót ef ég hafði til dæmis verið að skoða mér skó á netinu.

Í áhugaverðum erindum var byrjað að tæpa á því sem við vissum sem er að þjóðin er að eldast. Við erum hætt að deyja ung, meðalaldur hækkar og á sama tíma eignast fólk færri börn svo elstu aldurshóparnir verða hlutfallslega stærri. Þá verða ekki bara færri skattgreiðendur til að borga fyrir þjónustuna sem við eldri þurfum heldur mun vanta vinnandi hendur til að sinna þessum hópi.

Það verður seint hægt að minna nógu oft á mikilvægi þess að huga að líkamlegri og andlegri heilsu ef við verðum það lánsöm að sleppa við alvarlega sjúkdóma þegar kemur að síðasta aldursskeiðinu.

Þegar að því kemur að við þurfum aðstoð hafa verið teknar í notkun nýjar leiðir við að veita þjónustu eða svokölluð velferðartækni. Sumt þar er ekki nýtt svo sem hvers kyns öryggisskynjarar, lyfjaskammtarar , sjálfvirk salerni og ryksuguróbótar svo eitthvað sé nefnt. Stóru hjúkrunarheimilin hafa tekið í notkun smáforrit sem starfsmenn skrá í hvað eina sem gert er fyrir heimilisfólk; sem oftast eru sjúklingar, sakir þess hversu seint þeir komast að á slíku heimili. Sú skráning einfaldar til dæmis hjúkrunarfræðingum að hafa yfirsýn yfir hvern og einn og á að tryggja skjótari viðbrögð ef þurfa þykir. Ég veit reyndar ekki hversu aðlaðandi mér þætti að vakna upp við að vélmenni vildi koma mér framúr en nú þegar hafa verið þróuð rúm sem aðstoða við að komast fram úr þeim. Komnar eru á markað veltidýnur og þá er hægt að nota bleyjur með nemum sem senda boð og jafnvel greina ef sýking á sér stað.

Rolling Stones á Hlíð?

Kynslóðin sem næst þarf á þjónustu hjúkrunarheimila að halda mun breyta kröfum um aðbúnað. Talað er um að félagarnir í Rolling Stones séu næstir og hvað munu þeir vilja? Sú kynslóð er þegar orðin tæknivæddari og „snjallari“ en aðrir, hún er vön því að senda eftir þeim mat sem þá langar í og sækja sér afþreyingu í stað þess að þiggja það sem henni er skammtað. Kröfurnar verða því meiri og um leið verður enn mikilvægara að störf í þjónustu við eldra fólk verði gerð meira aðlaðandi.

Á málstofunni var líka sagt frá vélmenninu Lio sem íslenskur verkfræðingur vinnur við að þróa í Sviss. Sá sækir óhreinan þvott, ekur um með matarvagna og fer út með ruslið. Þá heldur hann fólki virku með söng, tónlist og æfingum og stendur vaktir á næturnar. Ég giska á að Lio verði vinsæll hjá Stones kynslóðinni þar sem hann getur rokkað með þeim inn í nóttina og pantað fyrir þá pizzu.

Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.

Nýjast