„Við kyngjum þessu alveg og látum þetta ekkert á okkur fá,” segir Bjarni Áskelsson formaður knattspyrnudeildar KA, er Vikudagur innti hann eftir viðbrögðum við höfnun Þórs um afnot á Þórsvellinum. KA hafði biðlað til framkvæmdastjórnar Þórs um að fá að leika fyrsta heimaleik sinn í 1. deild karla gegn ÍR á Þórsvelli á föstudaginn kemur, þar sem Akureyrarvöllur er ekki tilbúinn. Því hafnaði stjórn Þórs. KA sendi um leið beiðni til KSÍ um að fá að leika innandyra í Boganum og hefur það verið samþykkt.
„Við erum nokkuð rólegir yfir þessu. Sérstaklega miðað við veðurspána næstu daga en hún frekar slæm. Það verður því kannski ekkert verra að leika innandyra. Svona er bara staðan en við vonum að við fáum Þórsvöllinn í bikarnum,” segir Bjarni, en KA fær Grindavík í heimsókn í 32-liða úrslitum bikarins næstkomandi miðvikudag.
Stjórn Þórs samþykkti að KA fengi að leika á vellinum í bikarnum, með þeim fyrirvara að veður og vallaraðstæður verði í lagi.
Knattspyrnudeild KA mun funda í dag um niðurstöðuna í málinu.