„Það er ljóst að Akureyrarbær ætlar ekki að gera samning við Kisukot. Bærinn vill styrkja starfsemi um 500 þúsund krónur einu sinni og búið. Þannig að staðan er sú að ríflega 13 ára starf við að annast ketti hér í bæjarfélaginu er metin á hálfa milljón,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekur Kisukot- kattaaðstoð á Akureyri. „Eftir þessu beið ég í rúm tvö ár meðan málið þvældist á milli nefnda og ráða í bænum. Mín niðurstaða er sú að mér finnst þetta heldur snautlegt og hef ákveðið að hætta að þjónusta bæinn í þessum málaflokki. Nú verða starfsmenn bæjarins að taka við keflinu.“
Kisukot opnaði hún á heimili sínu í janúar árið 2012, fyrir 13 og hálfu ári. Hún hefur um árin tekið við gríðarlegum fjölda katta, veitt þeim skjól og annast þá. Meðal annars var hún ásamt fleirum að veiða villiketti, láta gelda þá og koma þannig í veg fyrir fjölgun í bæjarlandinu, en mikill fjöldi villikatta var á Akureyri þegar hún byrjaði með Kisukot. Þeim hefur fækkað til muna.
Í apríl árið 2023 sendu Samtök um dýravelferð og fleiri félög áskorun til Akureyrarbæjar um að styðja við bakið á starfsemi Kisukots. Bæjarráð tók þann bolta á lofti og var ákveðið að skoða með hvaða hætti unnt yrði að styðja við Kisukot. „Það má segja að ég hafi beðið í rúm tvö ár eftir að eitthvað myndi gerast í málinu, en á þessu tímabili hefur það velkst um í kerfinu á milli nefnda og ráða. Ráðaleysið er eiginlega algert. Og ég fékk afar sjaldan svör þegar ég hafði samband til að kanna stöðuna,“ segir hún.
Loks nú í vor var útséð um að bærinn hefði hönd í bagga með að útvega húsnæði fyrir starfsemi Kisukots. Þá var send út grenndarkynning meðal íbúa á götunni sem Ragnheiður býr við. Enginn hreyfði mótmælum við því að kattaathvarf yrði rekið á heimili hennar.
Ragnheiður segir að til tals hafi komið að gera þjónustusamning við Kisukot á þann veg að Akureyrarbær greiddi 50 þúsund krónur á mánuði með starfseminni og að auki stæði hann straum af geldingu katta. „Samningur af því tagi hefði alveg gengið upp, því dýralæknakostnaður er mikill. Á liðnu ári, 2024 nam hann um einni milljón króna og var auðvitað fyrir alls konar verk, ekki bara geldingu. En niðurstaðan hjá bænum er sem sagt að greiða mér einu sinni 500 þúsund og síðan ekki söguna meir. Mér finnst það heldur lítilfjörlegt miðað við þá vinnu sem ég hef lagt fram og umtalsverð fjárútlát. Þetta starf mitt á lögum samkvæmt að vera í höndum sveitarfélaganna. Ég hef sparað bænum verulega fjármuni um árin. En nú er komið að leiðarlokum, ég dreg mig í hlé og bærinn verður að sinna þessu verkefni eins og hann á að gera,“ segir Ragnheiður.
Hún nefnir að af og til hafi hún veitt ketti í nágrannasveitarfélögum, m.a. Eyjafjarðarsveit og Dalvíkurbyggð og þar sé viðmótið öllu hlýlegra en í heimabæ hennar. Forsvarsmenn sveitarfélaganna greitt reikninga frá dýralæknum sem til hafa fallið.
Ragnheiður kveðst hafa lagt líf og sál í þetta verkefni og er ekki í vafa um að erfitt verði að slíta sig frá því. Sérstaklega þegar kall kemur um veika og slasaða ketti en þannig útköll hefur hún um árin margoft fengið. Sem dæmi bjargaði hún nýverið ketti sem lá mjaðmagrindabrotin og bjargarlaus í garði og beið dauðans. Sá komst með aðstoð hennar undir dýralæknis hendur og var bjargað. „Svona beiðnir verður alveg örugglega mjög erfitt að skella skollaeyrum við,“ segir hún.
Nú eru 17 kettir hjá Ragnheiði, þar af eru tvær læður með alls 9 kettlinga nýfædda.