„Ég var ekki gleymdur“

Kristín S. Bjarnadóttir, Geir Gunnarsson og Guðrún Friðgeirsdóttir. Akureyri í baksýn.
Kristín S. Bjarnadóttir, Geir Gunnarsson og Guðrún Friðgeirsdóttir. Akureyri í baksýn.

Eftir nærri tveggja áratuga innilokun er Geir Gunnarsson nú laus úr fangelsi. Kristín S. Bjarnadóttir og fjölskylda hennar báru hitann og þungann af því að gera honum lífið aðeins léttbærara. Sumum samföngum Geirs fannst, eins og honum sjálfum, hann hafa öðlast blessun og eignast verndarengil. Hér á eftir fer viðtal við Geir og Kristínu um vináttu, einmanaleika og hjálpsemi. Saga þeirra getur hugsanlega orðið þeim, sem vilja láta gott af sér leiða, innblástur. Vikudagur rædfi við Geir og Kristínu en viðtalið birtist fyrst í Jólablaði Vikudags.

Nú á haustdögum var Geir látinn laus úr fangelsi í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Þar afplánaði hann þungan dóm sem hann hlaut fyrir alvarlega líkamsárás 25 ára gamall. Geir hafði flutt með foreldrum sínum og eldri bróður frá Íslandi til Bandaríkjanna þegar hann var 11 ára gamall. Hann aðlagaðist illa félagslega og reyndi stöðugt að sanna sig til að hljóta viðurkenningu og falla inn í hópinn. Hann endaði þó í vondum félagsskap og neyslu.

Kristíner gift þriggja barna móðir; fædd og uppalin á Svalbarði á Svalbarðsströnd. Húner hjúkrunarfræðingur að mennt og sérhæfði sig í líknarhjúkrun við Háskólann á Akureyri og Manchesterháskóla. Hún vinnur í Heimahlynningu á Akureyri og hefur haldið fjölda fyrirlestra um sorg og sorgarviðbrögð.

 

Seinna gat einfaldlega orðið of seint

Árið 2007 sá Kristín viðtal Sigmars Guðmundssonar við Geir í Kastljósi. Eftir það varð ekki aftur snúið. Þá þegar hafði Geir setið inni í níu ár; fjórum til fimm árum lengur en hann hefði mátt búast við miðað við dóma fyrir sambærileg brot. Samkvæmt Kristínu þótti 20 ára fangelsisdómur hans óvæginn og duttlungum háður. „Það var augljóst að maðurinn var mjög lífhræddur og alveg búinn á því. En jafn augljóst hvað mikið var í hann spunnið. Auðmýktin og iðrunin var mikil. Það blasti líka við að það var verið að brjóta á honum mannréttindi og að hann var ekki að fá þann stuðning sem hann þurfti“. Kristín sá líka að hann vantaði þessa taug heim. Meira samband við Ísland því hann hafði verið sviptur landvistarleyfi í Bandaríkjunum þar sem fjölskylda hans bjó. Hún hugsaði með sér að það væri eins gott að byrja strax að hjálpa honum í stað þess að bíða í tæp níu ár í viðbót eftir að hann kæmi til landsins; eins og líðan hans var á þessum tímapunkti þá gæti það í hennar huga einfaldlega verið orðið of seint.

Hjálparhellan

Geir kveið því að koma heim því hann hafði enga möguleika á að undirbúa búsetu sína hér. Hann mátti ekki hringja hingað og var ekki í miklu sambandi heim til Íslands. „Að vera sviptur landvistarleyfi í Bandaríkjunum að lokinni afplánun var eins og að fá annan dóm. En það var guðsgjöf að fá Kristínu inn í líf mitt. Það gjörsamlega breytti öllu.“ Hann bætir því við að hann væri ekki á þessum stað í dag ef ekki væri fyrir hana og fjölskyldu hennar.

Blæs á fordómana

Kristín segir að sumum hafi þótt svolítið sérstakt að þau skildu byrja að skrifa honum. „Til að byrja með voru nokkrir sem höfðu áhyggjur af þessu. Að við værum að skrifa ókunnugum afbrotamanni sem hafði fengið þungan dóm í Bandaríkjunum. Ég vissi líka af fordómum þegar við ákváðum að heimsækja Geir í fangelsið. Ákvörðun um heimsóknina var tekin eftir að pabbi hans dó. Geir leið mjög illa að hafa ekki getað stutt foreldra sína í veikindum hans og öll höfðum við verið að vona að pabbi hans næði að lifa það að sjá hann frjálsan. Á þessum tímapunkti átti hann enn eftir að afplána tvö og hálft ár. Það varð úr að við Sóley María dóttir mín færum sem fulltrúar okkar fjölskyldu að heimsækja hann. Einhverjir  hneyksluðust á að ég skildi vera að álpast inn í þetta fangelsi með unglinginn minn. Eins og ég vissi ekki hvað ég væri að gera.  En heimsóknin var einmitt afar vel undirbúin og ígrunduð. Og ég lét baktal annarra ekkert á mig fá. Á meðan fullkomið traust ríkti á milli okkar og Geirs þá var mér sama um hvað öðrum fannst“.

Strangar reglur

Einangrun Geirs í fangelsinu var mikil. Hann mátti hvorki fá pakka, föt, mat eða sælgæti að heiman. Það sem hann mátti fá sent varð að komast fyrir í umslagi og það mátti ekki vega meira en 28 grömm. Kristín sá við þessu og notaði hugmyndaflugið til að koma til hans gjöfum af ýmsu tagi. Geir segir: „Ég fékk engar gjafir nema frá Kristínu og fjölskyldu hennar. Ég fékk til dæmis litlar jólaskreytingar sem voru klipptar út, jólalímmiða, jólasögur og jólasálma í nokkrum umslögum. Ég skreytti klefann með þessu og gerði þannig mitt besta til að hafa huggulegt í kringum mig. Þetta var það eina sem ég hafði.“ Seinna var lagt bann við því að senda límmiða og Kristín fékk jólakortið til hans endursent það ár.

Mikil þrengsli

 Hlutirnir gátu gengið mjög hægt fyrir sig í fangelsinu.  Kristín segir: „Við komumst smám saman betur að því hversu ótrúlegar aðstæður hann bjó við. Hann var þarna ásamt öðrum fanga í klefa sem var minni en fimm fermetrar. Klósettið var líka inni í því rými. Þannig að þetta voru mikil þrengsli. Það myndar heldur enginn augnsamband þarna inni og ekki á neinn að treysta, hvorki fangaverði né fanga“.

 Óvissan það eina vissa

Síðustu árin sendi Kristín Geir dagatöl sem hún hafði hannað með fallegum myndum að heiman. Hún gat sent þau með því að klippa þau af gorminum og senda í mörgum pörtum.  Geir greinir frá því að síðustu jólin hefði hann hins vegar allt í einu ekki mátt fá dagatalið sitt. „Ég vissi að samkvæmt reglum var það leyfilegt en ég þurfti að berjast alveg hrikalega mikið fyrir því. Þeir gera sitt besta í að gera líf manns óþægilegt og í þessu tilfelli kostaði það mikið vesen“. Eftir fjögurra mánaða baráttu og bréfaskriftir til fangelsisyfirvalda fékk hann loksins öll umslögin með dagatalinu í hendur. Þá var honum jafnframt sagt að engin ástæða hefði verið fyrir því að neita honum um það „ Það er lítið hlustað á fólk þarna inni. Þeir halda alltaf að við vitum ekki hvað við erum að tala um og þó fangar þyrftu algjörlega að fara eftir öllum reglum þá þurftu fangaverðir ekki að fylgja þeim reglum sem þeim voru settar“.

  Að þessu leyti var erfitt að vera í svona stóru fangelsi því að reglurnar gátu breyst næstum daglega; eftir því hver var á vakt. Maður þurfti alltaf að vera viðbúinn breytingu. Það eina sem maður gat verið viss um var óvissan“.

Heimþrá um jól

Það sem Geir saknaði allra mest að heiman var samveran með fjölskyldunni um jólin. „Þetta var tími sem við vorum alltaf saman. Það var svo hátíðlegt heima hjá mömmu og pabba. Við vorum alltaf öll í jólaskapi. Það var búið að skreyta og verið að búa til matinn allan daginn. Pabbi var alltaf svo skemmtilegur í sér en á jólunum var hann tíu sinnum skemmtilegri. Hann var svo góður maður. Jólin voru almennt ekki haldin hátíðleg í fangelsinu. Það er sama rútína alla daga; líka um jólin. Margir þarna inni reyna bara að gleyma því að það séu jól. Geir fannst aftur á móti betra að reyna að halda í hátíðleikann. „Hver einustu jól hringdi ég heim á sama tíma. Þannig fannst mér ég geta svolítið verið með þeim. Þó það væru bara nokkrar mínútur. Það var alltaf gott að heyra í fjölskyldunni en það var erfitt að kveðja og mér leið illa lengi á eftir. Það er aldrei gott að vera einn um jól. Hvorki í fangaklefa né annars staðar.“

Aðfangadagskvöld erfitt

Eitt árið spurði Geir alla 88 fangana á deildinni hvort þeir vildu taka þátt í að halda jól. Tæplega helmingur þeirra vildi það. Þeim tókst með góðum vilja að setja saman jólamáltíð úr þeim skyndiréttum sem fáanlegir voru í fangelsisbúðinni. „Úr þessu varð þessi fína jólagleði. Við héldum helgistund og svo var borðað. Fimm borð voru hlaðin af mat og það varð svolítil fjölskyldustemning“ segir Geir. Með þessu náðu fangarnir að brjóta upp hversdagsleikann. Þetta var gert í þrjú ár en þá flutti Geir á aðra deild. Hann gerði þetta líka fyrsta árið þar en áhuginn á að endurtaka það var ekki fyrir hendi. Hann reyndi þó alltaf að finna að minnsta kosti einn samfanga til að setjast niður með sér á þessum erfiða hátíðartíma milli sex og átta á aðfangadagskvöld. Þegar hann vissi að foreldrar hans og bróðir voru að halda jólin heima.

Tengingin heim

Það skipti Geir miklu máli að hafa eitthvað sem minnti hann á heimalandið. „Amma sendi mér til dæmis jólakort fyrir um 15 árum sem sýndi Ísland um áramót. Ég setti þetta jólakort upp á vegg um hver jól eftir það og önnur póstkort sem ég fékk“. Þó það mætti hengja upp myndir í klefanum þá fengu fangarnir ekkert til þess en björguðu sér með því að nota tannkrem sem lím. Íslensk kort sem stóð „Gleðileg jól“ á voru í sérstöku uppáhaldi. Klefafélagar Geirs í gegnum tíðina skreyttu aldrei hjá sér. En þeir voru flestir sáttir við að Geir gerði það. „Ég á mynd af okkur Michael bróðursyni mínum sem var tekin af okkur saman í sófanum heima síðustu jólin mín þar. Það var erfitt að horfa á þessa mynd ár eftir ár í fangelsinu og sjá hvernig Michael stækkaði en ég var fastur í tíma. Lokaður inni í kassa. Allt mitt líf, reynsla og minningar frá því ég var 25 til 42 ára gamall var fast inni í þessum einangraða kassa sem ég var búinn að koma mér í. Ég get því miður ekki tekið til baka það sem ég gerði. En ég mun reyna að vera betri maður“. Kristín hvatti alla til að skrifa Geir í fangelsið og það varð mikil tilbreyting og styrkur fyrir hann síðustu jólin að fá fjölda jólakorta frá Íslandi. Fangaverðirnir voru steinhissa þegar þeir komu alltaf með nýjan og nýjan kortabunka til mín: „Mikið hrikalega átt þú marga vini!“ Áður hafði samfangi spurt Geir hvort hann væri kóngurinn yfir Íslandi, vegna athyglinnar að heiman.

 „Ég hafði ekkert“

Geir hafði haft verulegar áhyggjur af framtíðinni. Honum fannst því sérlega gott og traustvekjandi að fá Kristínu og Sóleyju Maríu í heimsókn og heyra hvað undirbúningur fyrir komu hans heim gekk vel. „Það var allt á réttri leið. Það var þeim að þakka að ég var ekki lengur kvíðinn yfir hvar ég  ætti að búa, hvort ég hefði föt til að fara í eða mat í ísskápnum „því ég hafði ekkert“.

Einmanaleiki

Kristín: „Þessarlýsingar Geirs á einmanaleika um jólin eru okkur hér heima öllum góð áminning um að mikilvægt er að hugsa út fyrir kassann þegar við vitum af einhverjum sem er einmana. Það eru til dæmis margir sem syrgja og sakna. Það þarf stundum bara að taka af skarið. Það er hellingur sem við getum gert og það þarf ekki að kosta peninga. Því eins og Geir sagði þá er það samveran með fólkinu sem hann saknaði mest. Fyrir okkur sem lifum hér og hrærumst í hversdeginum er ekki mikið mál að skrifa eitt bréf. En að hlusta svo á hann segja frá því mörgum árum seinna hverslags ótrúleg upplifun það var fyrir hann að fá þetta bréf frá okkur þarna í upphafi; sannfærði mig endanlega um að maður á bara að láta vaða.“ Geir tekur undir þetta. „Auðvitað vissi ég að foreldrar mínir elskuðu mig og vildu allt fyrir mig gera. Þannig eru foreldrar. En það var svo æðislega gott að heyra frá ókunnugum heima á Íslandi. Þá fór ég í fyrsta skipti aftur að fá von um að ég gæti jafnvel átt eftir að eignast næstum því eðlilegt líf seinna. Að ég yrði ekki bara stimplaður glæpamaður eins og ég hafði búist við. Ég var allt í einu farinn að hafa eitthvað meira til að lifa fyrir. Ég var ekki gleymdur“.

 

 

Á Akureyri

Vegna þess að Geir var svo einangraður frá lífinu heima á Íslandi gerði Kristín allt sem hún gat til að upplýsa hann og undirbúa hann sem best fyrir heimkomuna. Hún og fjölskyldan sendu honum upplýsingar í pappírsformi svo sem blaðagreinar og fleira. Í nokkur skipti hafði Kristín opið hús til fjársöfnunar fyrir Geir og stóð þá jafnframt fyrir bréfamaraþoni til hans. „Þannig bárust Geir ógrynni frétta að heiman og hann las allt upp til agna sem  hann fékk. Hann Geir er bara svo góðum gáfum gæddur og áhugasamur; að hann man allt sem hann les“ segir Kristín.Síðustu árinvar reglum breytt þannig að fangarnir gátu eftir ströngum skilyrðum pantað fáeinar bækur. Geir hafði þó enga leið til að panta frá Íslandi en eftir krókaleiðum tókst að koma til hans bókum sem var látið líta út fyrir að hann hefði pantað sjálfur. Ein þessara bóka var ljósmyndabók frá Akureyri „Ég skoðaði og las þessa bók spjaldanna á milli og lifði hreinlega í gegnum hana. Það var því algjör draumur að rætast þegar ég kom svo loksins í fyrsta skipti á ævinni til Akureyrar nú í haust“ segir Geir en hann heimsótti Kristínu og fjölskyldu ásamt móður sinni. „Ég hlakkaði eiginlega enn meira til þess heldur en að lenda í Keflavík. Það var ótrúlegt að stíga út úr bílnum í miðbænum á Akureyri þar sem ég þekkti allt umhverfið svo vel af myndum úr bókinni.“ Allra hrifnastur var Geir af Akureyrarkirkju. Þar fengu þau mæðgin góðar móttökur og var sýndur hver krókur og kimi kirkjunnar.

Laus úr fangelsinu

Um komu Geirs heim til Íslands segir Kristín að hún hafi verið mjög óraunveruleg. Margt þurfti að ganga upp á lokametrunum. Það reyndist ógjörningur að fá leigða íbúð fyrir Geir í Reykjavík. „Það endaði með að frábær vinur minn, Jóhannes Helgi Gíslason, bauðst til að ganga úr íbúð fyrir Geir þar til úr rættist. Það góðverk leysti stóran hnút. Ég var í daglegu sambandi við sendiráðið í Washington því það var ekki vitað hvenær bandarísk yfirvöld myndu senda Geir heim. Allt fram á síðustu stundu var mjög mikil spenna. En svo allt í einu var hann kominn og það var mögnuð stund á Keflavíkurflugvelli“.

Fyrstu jólin í frelsinu og framtíðin

Geir er á blússandi siglingu inn í nútímann með nýja símann sem hringir í sífellu eins og hjá öðrum nútíma Íslendingum. Hann er búinn að læra á skype og er kominn á Facebook. Hann er bjartsýnn og lífið blasir við. Nú er bara að finna góða vinnu og bíða eftir því að ástin banki á dyrnar í lífi hans. Geir hlakkar mjög til að verja fyrstu jólunum sínum sem frjáls maður hjá fænku sinni, Stellu Friðgeirsdóttur og fjölskyldu, í Danmörku. Hvað Kristínu og fjölskyldu varðar þá er Geir löngu orðinn kær fjölskylduvinur. „Ég hef oft sagt það að við fjölskyldan erum ríkari af kynnum okkar við Geir. Það er fyrst og fremst dásamlegt að sjá hann blómstra núna. Hann er að eignast fullt af vinum og að endurnýja kynnin við ættingja sína hér heima. Mér finnst aðdáunarvert við Geir að hann er laus við biturleika og svo þakklátur fyrir hversdaginn. Honum finnst gaman að vakna á hverjum morgni og vita að hann er frjáls. Hann er með svo smitandi lífsneista og það er yndislegt að vera í kringum hann. Við hlökkum til að fylgjast með honum blómstra áfram og sjá hann eignast fjölskyldu – það er draumurinn hans“.

 

 

 

 

Nýjast