Það eru engar líkur á því að KA geti leikið sinn fyrsta heimaleik á Akureyrarvelli þann 20. maí næstkomandi, en liðið tekur þá á móti ÍR í 1. deild karla í knattspyrnu. Þetta segir Eðvarð Eðvarðsson, vallarstjóri á Akureyrarvelli, á heimasíðu KA í dag.
„Það eru engar líkur á að fyrsti heimaleikur KA við ÍR þann 20. maí fari fram á vellinum, enda höfum við stefnt allan tímann að því að vera með hann kláran 2. júní í öðrum heimaleik. Með það fjármagn sem við höfum í höndunum er ógjörningur að gera völlinn kláran fyrir 20. maí, því miður," sagði Eðvarð.
Gera má ráð fyrir því að KA óski eftir að fá að leika fyrsta heimaleikinn á Þórsvelli. Að öðrum kosti stendur Boginn aðeins til boða.