Að fara fram með þeim hætti, að þeir sem hafa nýtt sér svæði innan þjóðgarðsins hvað mest, s.s. sleðamenn,
jeppamenn, hestamenn og aðrir útivistarunnendur séu ekki hafðir með í ráðum, eru sannarlega ekki vinnubrögð sem sæma
lýðræðisstjórnun. Umhverfisráðherra hefur með ákvörðun sinni staðfest verndaráætlun sem hefur í för með
sér gríðarlega skerðingu á ferðafrelsi þeirra sem vilja njóta fallegar náttúru og ferðast um svæðið á
vélknúnum farartækjum. Fjölmargar ábendingar og athugasemdir hafa borist á löngum tíma frá LÍV og öðrum aðilum inn
á borð ráðherra og einnig til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðsins. Þetta hafa verið afar vel ígrundaðar
ábendingar og vel studdar málefnalegum rökum. Þær hafa allar veið hunsaðar.
Sem dæmi um áhrif þessarar ákvörðunar þá er vélsleðamönnum hér eftir bannað að ferðast um viss svæði, eins
og til dæmis Öskjusvæðið, eftir 1. maí. Allir sem þekkja hálendi Íslands vita að svo snemma vors hentar svæðið afar vel til
ferðalaga á snjó, umferð annarra ferðalanga er í lágmarki og svo framvegis. Það liggur í hlutarins eðli að vélsleðar eru
eingöngu notaðir þegar snjór er yfir landinu og augljóst má vera að allar slóðir eftir vélsleða hverfa um leið og snjóa
leysir.
Augljóst er einnig að stór hópur ferðafólks ferðafólks á þess ekki kost að ferðast um landið á tveimur jafnfljótum og möguleikar þessa fólks til að njóta náttúru landsins eru því verulega takmarkaðir. Hvers vegna hagsmunir ákveðinna ferðahópa eru jafn fótum troðnir og raun ber vitni með ákvörðun umhverfisráðherra er með öllu óskiljanlegt. Stjórn LÍV, sem er aðili að SAMÚT (samtök útivistarfélaga) og Ferðafrelsi sættir sig ekki við þessa ákvörðun og fer fram á að umhverfisráðherra endurskoði hana. Þegar í stað verði kallað eftir fulltrúum frá öllum hagsmunaaðilum þar sem farið verði betur yfir þessi mál og reynt að koma til móts við alla sem hlut eiga að máli, segir í yfirlýsingu frá stjórn Landssambands íslenskra vélsleðamanna.