Endurminningar Sveins í Kálfsskinni komnar á bók

Bókaútgáfan Hólar hefur sent frá bókina Vasast í öllu, endurminningar Sveins í Kálfsskinni, eftir Björn Ingólfsson fyrrverandi skólastjóra á Grenivík. Athafnamaðurinn Sveinn Jónsson, sem orðinn er 75 ára, hefur komið víða við á sinni litríku ævi og eins og titill bókarinnar segir, hefur hann verið að vasast í öllu. Sveinn hefur ennþá hæfileika til að lifa lífinu og undrast og gleðjast yfir því sem hann heyrir og sér, hlakka til þess sem framundan er og njóta þess sem hann hefur séð og lifað og ylja sér við minningar, eins og segir á bókarkápu.

Í útgáfuhófi sem haldið var í Árskógi sagði Sveinn m.a. að með góðra manna hjálp væri komin út bók um sig. "Menn hafa spurt hvort ekki sé allt satt í bókinni en ég hef nú svarað því þannig að það sé eins satt og ég man það. Menn verða að fyrirgefa mér ef einhvers staðar slæðist villa en það er þá bara út af aldrinum."

Björn Ingólfsson sagði að útgefandinn hefði beðið sig að skrifa þessa bók. "Þetta getur aldrei orðið skemmtileg bók," var það fyrsta sem Sveinn sagði við mig þegar ég fór að orða þetta við hann. "Ævisögur þurfa að vera skemmtilegar og það verður aldrei hjá mér." Nú er bókin komin og Sveinn er ennþá hræddur um hún sé ekki skemmtileg. Ég er ekki eins svartsýnn hvað þetta varðar en við erum reyndar báðir ófærir að dæma um það mál, það verða aðrir að gera," sagði Björn og bætti við að ef ekki hafi tekist að gera skemmtilega bók úr Sveini í Kálfsskinni, væri það ekki honum að kenna.

Nýjast