Umboð Happdrættis DAS á Akureyri færði vinningshafanum gleðifréttirnar og sagðist hann frekar vilja fá peninginn og sleppa bifreiðinni enda ekki með bílpróf. Var það auðsótt mál. Aðspurður sagðist hann ætla að huga að íbúðarkaupum enda væri hann í leiguhúsnæði sem stendur. Hann sagði að vinningurinn kæmi sér vel enda væri hann hættur að vinna og lifði bara á ellilífeyri. Var hann afar þakklátur og sagðist hafa átt þetta númer í mörg ár og vildi með því styðja við málefnið.
Ekki væri slæmt að fá vinning öðru hverju en svona há upphæð var fjarri hans draumum. Í lok samtalsins bað hann umboðsmanninn um að endurtaka vinningsupphæðina svo hann væri viss um að hann hefði heyrt rétt, segir í fréttatilkynningu.