Nú í nóvember og í aðdraganda jólanna þá eykst umfang netverslana verulega. Fyrir utan hefðbundna verslun og jólaverslun þá eru nú svokallaðir nettilboðsdagar á borð við dag einhleypra, svartan föstudag og stafrænan mánudag.
Á þessum dögum koma fyrirtæki oft með freistandi tilboð og fara vinsældir þeirra sívaxandi, því hver vill ekki gera góð kaup fyrir jólin. Veltan í netverslun eykst en svo virðist sem tilraunum til netglæpa fjölgi að sama skapi.
Því er sérstakt tilefni er til að fara varlega þegar kemur að netverslun á næstunni og samþykkja ekkert nema þú sért þess fullviss um að það eigi við þín eigin kaup og viðskiptin séu við rétta aðila.
Þannig eru nýleg dæmi um að svikahópar hafi birt auglýsingar á Facebook þar sem boðin eru kostakjör á þekktum vörumerkjum, bæði innlendum og erlendum. Þegar smellt er á hlekkinn er vísað á eftirlíkingu af sölusíðu viðkomandi fyrirtækis sem svikahóparnir hafa búið til með það að markmiði að fá fólk, sem taldi sig eiga í viðskiptum í góðri trú, til að gefa upp kortaupplýsingar.
Þá hafa svikahópar einnig ítrekað sent út SMS skilaboð sem sagt er koma frá flutningafyrirtækjum með það að markmiði að fá einstaklinga, sem jafnvel eiga von á sendingum, til að gefa upp kortaupplýsingar eða opna fyrir rafræn skilríki.
Hér eru nokkar vel þekktar vísur sem virðast aldrei vera of oft kveðnar þegar kemur að verslun á netinu:
Hafir þú lent í svikahröppum, hafðu þá þegar samband við bankann þinn, kortafyrirtæki og lögreglu og farðu strax í að loka greiðslukortum og skrá þig út úr öllum tækjum í gegnum heimabanka.
Á vefnum Taktu tvær má finna fleiri góð ráð til að verjast netsvikum.
Brýnt er nú sem endranær að fara öllu með gát í netheimum svo jólaverslunin gangi eins og best verður á kosið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.