Kvikmyndagerðamaðurinn Baldvin Zophoníasson eða Baldvin Z, hefur haslað sér völl í íslenskri kvikmyndagerð á undanförnum árum og má segja að stjarna hans hafi skinið skært á árinu sem er að líða. Baldvin er fæddur árið 1978 en hann ólst upp á Oddeyrinni og minnist æskuáranna frá Akureyri með hlýhug. Vikudagur ræddi við Baldvin Z en viðtalið var unnið af fjölmiðlafræðinemum í HA og birtist fyrst í Jólablaði Vikudags.
,,Ég held það hafi í rauninni verið rosa gott að alast upp á Akureyri og á þessum tíma sérstaklega útaf því að ég er af síðustu kynslóðinni fyrir útivistartíma. Þegar ég var 10 ára var enginn útivistartími og það var alveg geðveikt gaman á Akureyri. Maður var úti öll kvöld og langt fram eftir nóttu stundum í alls konar leikjum. Þetta var nokkuð týpiskt hjá mér, eins og er hjá flestum sem alast upp úti á landi. Ég var í fótbolta, með Þór, að sjálfsögðu. Æskuárin voru heilt yfir ljúf þannig lagað og fyrir utan nokkur áföll fékk ég heilbrigt og gott uppeldi,” segir Baldvin sem varð fyrir því áfalli að missa móður sína á unglingsaldri.
Hóf ungur að semja sögur
Baldvin fór snemma að pæla í sjónvarpsefni og segist hafa verið mjög áhugasamur um að segja sögur alveg frá því að hann muni eftir sér.
,,Þegar ég fæ áhuga á kvikmyndagerð er ég 11 ára og þá breytist töluvert mikið hjá mér. Ég verð svolítið sér á báti þó ég haldi alveg áfram í fótbolta til 15 ára aldurs. Ég hafði alltaf áhuga á söguforminu. Ég man eftir mér vera að skrifa og semja sögur þegar ég var í Oddeyrarskóla. Einn kennarinn leyfði mér alltaf að lesa sögu á föstudögum þegar ég var 8 ára. Eftir að hafa séð sjónvarpsseríu sem heitir Twin Peaks eftir David Lynch má segja að áhuginn á kvikmyndagerð hafi kviknað. Á fimmtudagskvöldum var ég eini gaurinn í vinahópnum sem var heima að horfa á sjónvarpið á meðan allir hinir voru úti á túni í fótbolta. Þetta heltók mig algjörlega,” segir Baldvin.
Á þessum tíma var aðgengi að allri tækni töluvert erfiðari en það sem ungt áhugafólk um kvikmyndagerð lifir við í dag en Baldvin átti reyndar hauk í horni.
,,Besti vinur minn úr grunnskóla var sonur Sigurðar Hlöðverssonar sem er gamalgróinn tökumaður frá Akureyri og tók upp fyrir Stöð 2. Hann var með sitt eigið studio og allar græjur. Þegar við vorum 11 ára fórum við á klippinámskeið hjá honum og fengum alltaf aðgang að græjunum hans sem voru af VHS tækninni.Við vorum því með fína vél og gerðum stuttmyndir sem við reyndum að sýna í skólanum en það var reyndar misvel tekið í það. Þetta voru frekar langar og leiðinlegar myndir eins og gengur og gerist þegar maður er að gera sínar fyrstu myndir. Þetta var allt saman miklu flóknara og erfiðara heldur en það er í dag. Bæði það að maður sá miklu minna af efni en krakkar geta gert í dag með Youtube og fleiru. Margir krakkar eru í dag orðnir geggjaðir kvikmyndagerðamenn 10 ára gamlir. Maður sér börnin sín klippa og skjóta myndbönd eins og ekkert sé, sem var eitthvað sem maður gat bara dreymt um þegar maður var krakki. Ég dróg vini mína að leika og þeir entust í því kannski til 15 ára aldurs.
Í annarlegu ástandi
Fyrsta starf Baldvins í bransanum var á akureyrsku sjónvarpsstöðinni Aksjón sem starfrækt var frá 1997-2006 en Baldvin starfaði á stöðinni í rúmlega eitt ár í kringum aldamótin. Hann segir þennan stutta tíma hafa verið mikið ævintýri.
,,Ég man mjög óljóst eftir þessu,” segir Baldvin hlæjandi. ,,Þetta var algjört ævintýri. Aksjón var eini vettvangurinn í þessum bransa á Akureyri, ásamt fyrirtæki sem hét Samver. Ég sótti um vinnu þarna eftir að mér var sagt upp á flugvellinum á Akureyri og byrjaði að gera sketsaþætti sem hétu Hæ Gosi. Svo fór ég líka að að klippa fréttir og fleira. Þetta endaði svo með að ég var með beina útsendingu hverja einustu helgi með þátt sem hét ,,Í annarlegu ástandi”. Þar voru ég og meðstjórnandi minn, Doddi Dj, eins og hann var kallaður fullir í stúdíói, sýndum sketsa og tókum viðtöl.” Þessi tími var þó ekki eintóm fíflalæti heldur segir Baldvin að hann hafi lært mjög mikið af tíma sínum á Aksjón.
Þetta var mjög skemmtilegur tími en líka lærdómsríkur. Ég hef svo lengi verið að standa á eigin fótum og að gera allt sjálfur og hef lært mikið á því. Það byrjaði þarna. Svo þegar ég fer að gera Hæ Gosa þáttaröðina þá erum við að gera allt sjálf.. Ég hef lært voða mikið að gera þetta bara einhvernveginn á hnefanum og það er alveg æðislegur grunnur að hafa gert þetta allt á eigin fótum”, segir Baldvin.
Eftir viðburðarríkt ár á Aksjón stofnaði Baldvin auglýsingastofuna Geimstofuna í félagi við nokkra aðra og sá hann aðallega um að gera sjónvarpsauglýsingar. Meðfram því vann Baldvin við félagsmiðstöðina Húsið þar sem hann var mikið að föndra við að gera stuttmyndir og fleira í þeim dúr. Þá vann Baldvin einnig nokkur sérverkefni fyrir ýmsa aðila og gerði meðal annars tónlistarmyndbönd fyrir goðsagnakenndu rapphljómsveitina Skytturnar.
,,Linkin Park varð til vegna Toy Machine”
Baldvin getur ekki skilið við tímann á Akureyri án þess að minnast á tónlistarferilinn sem hann átti sem trommari rokkhljómsveitarinnar Toy Machine sem naut mikilla vinsælda á Akureyri í kringum aldamótin.
,,Ég vil ekki segja að ég hafi verið mjög teknískur trommari en það var geðveikur fílingur í mér. Ég er mjög stoltur af mínum trommaraferli. Við hefðum klárlega getað átt okkur framtíð. Skömmu áður en við hættum spiluðum við á fyrstu Iceland Airwaves hátíðinni í flugskýli 4 þar sem við vorum eitt af fjórum íslenskum böndum sem spiluðu á hátíðinni. Það voru Quarashi, Ensími, GusGus og Toy Machine. Í kjölfarið var okkur boðið til New York þar sem við spilum á CBGB sem er mjög ,,legendary” tónleikastaður og sagan segir að hugmyndin að hljómsveitinni Linkin Park hafi fæðst út frá okkur. Þetta er einhver flökkusaga en ég sel hana ekki dýrara en ég keypti hana. Við töldum okkur vera á barmi heimsfrægðar sem við vorum nátturúlega ekki. Við vorum samt með fullt af tækifærum í höndunum en við skulum bara orða það þannig að við höfum tekið sex, drugs n rock n roll pakkann allan út fyrir lífstíð í þessari ferð sem varði í tvær vikur. Í kjölfarið sprakk bandið í rauninni,” segir Baldvin.
,,Ekki hafa back-up plan – það rústar draumnum”
Baldvin flutti ásamt fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar árið 2005 og hugðist hefja nám við Danska kvikmyndaskólann. Eftir ár í Danmörku hófst umsóknarferlið sem var langt og strangt. Af um 240 nemendum voru 6 sem komust inn og var Baldvin ekki einn af þeim. ,,Ég komst ekki inn og eftir það varð ég svolítið eyðilagður. Ég hélt einhvernveginn að þessi kvikmyndadraumur væri bara búinn. Við vorum að fá þriðja barnið á þessum tíma og þetta var bara voðalega þunglynt í lok árs 2007 Maður heyrir oft fólk segja ,,ef þú ætlar þér eitthvað, gerðu það þá!” en það er bara eitt grundvallaratriði sem þú verður að hafa í huga ef þú ætlar að láta drauma þína rætast; að hafa ekki back-up plan – það rústar draumnum. Ég var ekki með neitt back-up plan og það hjálpaði en það þýddi að ég var kominn með heimildir hjá 7 mismunandi lánastofnunum árið 2008. Þetta er alger geðveiki en ég er búinn að borga það til baka í dag.” Eftir þrjú ár í Danmörku flutti fjölskyldan heim til Íslands og þá bauðst Baldvini vinna á höfuðborgarsvæðinu. Eftir 5 mánuði í vinnu þar fór fyrirtækið á hausinn. ,,Ísland hrundi og hið stóra meltdown átti sér stað. Ég sótti um vinnu hjá öllum fyrirtækjunum og það gat enginn ráðið mig í vinnu því ég hafði ekki gert neitt af viti, þannig séð. Þá stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki og náði einhvernveginn að troða mér inn á auglýsingamarkaðinn og fékk slatta af verkefnum.”
Á þessum tíma fóru hlutirnir að rúlla hjá Baldvini þegar hann kynntist þeim Júlíusi Kemp og Ingvari Þórðarsyni, kvikmyndaframleiðendum. ,,Þeir gera með mér stuttmynd, Hótel Jörð og þetta eru mennirnir sem koma með Óróa til mín. Það handrit var reyndar skelfilegt sem ég las fyrst en svo fengum við tækifæri til þess að endurskrifa það og gerðum þá mynd saman. Það var fyrsta verkefnið sem ég vinn með öðrum en sjálfum mér. Svo eftir Óróa hélt ég að ég myndi fá endalausa vinnu en það gerðist ekki neitt. Þá fórum við að gera Hæ Gosa” Baldvin segir að þó svo að ekki hafi rignt yfir hann verkefnum eftir Óróa þá hafi sú mynd klárlega verið stökkpallur fyrir hann. Hæ Gosi var lifibrauð hans í þrjú ár og á sama tíma skrifaði hann og þróaði Vonarstræti.
Það er engum blöðum um það að fletta að árið 2015 hefur komið Baldvini á kortið en telur hann sig vera búinn að meikaða? ,,Að meikaða er mjög skrítið orð. Þegar ég var í rokkhljómsveit þá fannst mér meik vera sex, drugs and rock’n’roll; þetta er bara skilgreiningaratriði. Það sem hefur breyst hjá mér er að ég hef ekki lengur áhyggjur af því hvort ég fái fleiri verkefni. Þetta var alltaf bara ,,hvað gerist nú, hvað gerist næst”. Ég er kominn á þann stað að ég veit að ég er með verkefni til 2020. Það er frábær tilfinning. Ef það er að meikaða þá, já, klárlega!”
Baldvin segir að framtíðin sé mjög björt í íslenskri kvikmyndagerð. Hann segir nýja kynslóð leikstjóra hafa fengið allt öðruvísi kvikmyndalegt uppeldi en þeir sem fyrir voru. ,,Friðrik Þór og Hrafn Gunnlaugs, þeir sem eru á undan Balta, sáu kannski 1-2 bíómyndir í mánuði. Mín kynslóð hefur aðgang að miklu meira efni en kynslóðin á undan, okkar lesskilningur á bíói og videoi er allt öðruvísi en þeirra og þess vegna eru okkar myndir allt öðruvísi en myndirnar sem þeir gerðu. Ég held að þessi kynslóð sem er að koma inn núna sé ótrúlega spennandi. Auðvitað mættu fleiri fara á íslenskar myndir í bíó en við verðum líka að átta okkur á því að fólk nennir ekki endalaust að horfa á myndir um fólk í lopapeysu einhversstaðar. Við viljum líka horfa á samtímasögur þannig að það verður að vera fjölbreytni.”
Fjölskyldufaðirinn Baldvin
Það er ekki bara að miklu að huga hjá Baldvini í kvikmyndaheimum því hann hefur stórri fjölskyldu að sinna en hann er giftur Heiðu Sigrúnu Pálsdóttur og eiga þau þrjú börn saman. Baldvin viðurkennir að það hafi tekið tíma að læra að tvinna saman uppganginn á framabrautinni og fjölskyldulífið.
,,Ég held að það séu svona tvö ár síðan ég lærði að sameina þetta. Fyrir þann tíma var ég bara ,,out of it” meðan ég var að vinna. Ég skildi fjölskylduna mína eiginlega bara eftir þegar ég var að vinna að Vonarstræti, Óróa og Hæ Gosa. Þetta var bara 24/7 og ég einhvernveginn kunni ekki að díla við þetta. Þá tók ég ákvörðun að ég gæti þetta ekki því mig langaði ekki að hafa þetta svona. Núna undanfarin tvö ár hef ég verið að þróa vinnutækni sem gengur vel og við gerðum þetta saman ég og Heiða. Við töluðum saman og áttuðum okkur á að við þyrftum að finna út úr þessu af því að þetta er það sem ég á eftir að gera það sem eftir er ævi minnar. Ég ætla ekki bara alltaf að kveðja og segja bless þegar ég fer að vinna, það er bara alveg fáranlegt. Þannig að já, þetta er alveg hægt, alveg klárlega,“ segir Baldvin
Nóg af verkefnum á döfinni
Það er nokkuð ljóst að Baldvin mun ekki sitja aðgerðarlaus á næstunni en eins og áður hefur komið fram er hann með verkefni til ársins 2020. Það er ýmislegt í pípunum hjá honum og mikið af spennandi efni í vinnslu. Meðal annars mynd sem hann gerir sjálfur sem er undir vinnuheitinu Contalgen-börnin. Einnig er vert að nefna að í þróun er sjónvarpssería úr bókinni Nautið, sem er ný bók eftir Stefán Mána. Fleiri verkefni eru í þróun og nefnir Baldvin að ein sjónvarpssería gæti átt að gerast á Akureyri. ,, Það er mjög stutt komið en er ógeðslega spennandi verkefni. Ég er alltaf að reyna koma Akureyri að: ,,Hey en ef við gerum þetta á Akureyri?” Þetta er flottur bær, það er svo kúl að nota hann. Akureyri hefur verið mjög lítið notuð”, segir Baldvin.
- AGH/EVB