Eitt ár liðið frá því fiskvinnsla hófst á Grenivík á ný

„Það hefur gengið mjög vel og samkvæmt þeim áætlunum sem gerðar voru í byrjun," segir Ægir Jóhannsson frystihússtjóri hjá fiskvinnslu Gjögurs á Grenivík.  Um það bil ár er liðið frá því vinnsla hófst í frystihúsinu á ný undir nafni Gjögurs.  Þarf starfa nú 22 starfsmenn. Ægir segir að veðrið undanfarið hafi sett svolítið strik í reikninginn.   

„Við ætluðum að byrja á ný eftir áramót á föstudaginn fyrir rúmri viku, en þá var kolvitlaust veður um land allt, þannig að við hófum starfsemi á nýju ári sl. mánudag," segir hann.  Bátar Gjögurs, Vörður og Oddgeir afla hráefnis til vinnslunnar, en þeir eru gerðir út frá Grindavík og er aflanum ekið norður í land til vinnslu á Grenivík.  Ferskur fiskur er svo fluttur daglega frá frystihúsinu og til Frakklands þar sem hann er seldur.

„Það hefur gengið ágætlega þar til nú í upphafi þessa árs, samgöngur eru ekki upp á það besta, ófærð og leiðinda veður," segir Ægir, en starfsfólk hefur líka átt í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar til og frá vinnu vegna snjóþyngsla í þorpinu. „Við erum sáttir við árið, það hefur gengið vel hjá okkur næg verkefni framundan," segir Ægir.  Fyrirtækið hefur keypt nýjan lausfrysti sem búið er að setja upp í húsinu og segir Ægir að í kjölfarið muni skapast meiri vinna í frystihúsinu.

Nýjast