Þórsarar taka á móti liði Breiðabliks í kvöld á Íslandsmótinu í 1. deild karla í körfubolta og hefst leikurinn kl. 19:15 í Íþróttahöllinni. Þór er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Þórs frá Þorlákshöfn sem hafa leikið einum leik minna.
Breiðablik hefur 12 stig í fimmta sæti en liðinu var spáð efsta sætinu fyrir mót. Blikar áttu hins vegar erfitt uppdráttar í byrjun móts en hafa nú unnið síðustu þrjá leiki, nú síðast gegn sterku liði FSu.
„Þetta verður einn af stóru leikjunum í vetur,” segir Óðinn Ásgeirsson leikmaður Þórs um leikinn í kvöld. „Þeir eru með mjög góðan mannskap og þetta er alvöru lið. Þannig að ég reikna með hörkuleik," segir hann, en nánar er rætt við Óðinn í Vikudegi í dag.