Einleikurinn Djúpið sýndur í Samkomuhúsinu

Einleikurinn Djúpið með Ingvari E. Sigurðssyni verður sýndur í Samkomuhúsinu á Akureyri sunnudaginn 15. maí. Í kvöld er sýning á verkinu í Ólafsfirði. Djúpið var sýnt hjá LA í fyrra og í framhaldinu bárust margar fyrirspurnir um hvort það yrði sýnt aftur á Akureyri. "Við gerum allt fyrir okkar fólk," segir María Sigurðardóttir leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, sem er annars að skipuleggja "mjög skemmtilegt næsta leikár."  

Djúpið er frásögn úr íslenskum veruleika sem lætur engan ósnortinn. Þetta er óður til allra þeirra fjölmörgu, íslensku sjómanna sem í gegnum aldirnar hafa haldið á djúpið. Bátur heldur úr höfn rétt fyrir dögun. Menn ýmist fleygja sér í koju eða halda sér vakandi á sígarettum, kaffi og veltingi. Enginn hefur minnsta grun um hvað er í vændum.

Þá er von á annarri gestasýningu til Akureyrar síðar í mánuðinum; Af ástum manns og hrærivélar. Um er að ræða hjartnæman heimilistækjasirkus fyrir alla fjölskylduna með Kristjáni Ingimarssyni og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Sýningin var frumsýnd á listahátið í Reykjavík 2010 og komust færri að en vildu. Kristján og Ólafía Hrönn fara á kostum í þessum undursamlega hræringi manns og heimilistækja í Samkomuhúsinu 20. og 21. maí. Sýningin er samstarfsverkefni CommonNonsense, Þjóðleikhúsins og Leikfélags Akureyrar.

Leiklistarskóla LA er lokið en sl. sunnudag fluttu nemendur skólans nokkur lög úr Ávaxtakörfunni í Akureyrarkirkju. Þann sama dag tók hópur úr skólanum þátt í söngleiknum Líf og friður í kirkjunni en það er Leiklistarskólinn sem stendur fyrir þessum söngleik.

Nýjast