Hornamaðurinn Oddur Gretarsson hlaut eldskírn sína með íslenska landsliðinu í handbolta á stórmóti er hann kom inn á undir lok leiksins gegn Frökkum sl. þriðjudag á HM í Svíþjóð. Oddur hefði ekki getað fengið erfiðari mótherja í sínum fyrsta leik þar sem franska liðið er ríkjandi heims-, Evrópu-og Ólympíumeistari.
„Þetta var pínu skrýtið. Guðjón Valur (Sigurðsson) meiðist undir lokin og þjálfarinn kallaði í mig og ég fór ískaldur inn á völlinn og beint í skotfæri gegn besta markmanni í heimi,” segir Oddur. Hann lét franska markvörðinn Thierry Omeyer verja frá sér í tvígang, en Omeyer er af mörgum talinn besti handboltamarkvörður heims. Seinna skotið hjá Oddi fór beint í andlitið á Omeyer, sem var ekki par sáttur við Akureyringinn unga í kjölfarið. „Hann sagði eitthvað við mig á frönsku sem ég skildi ekki neitt en ég bað hann afsökunar eftir leikinn og hann tók mig í sátt,” segir Oddur
Ísland leikur um 5. sætið á mótinu gegn Króatíu í kvöld kl. 19:30 og leggst leikurinn ágætlega í Odd. „Ég hef lítið sé til Króatana en þeir eru með sterka einstaklinga og eru klókir. Við eigum samt góða möguleika og það væri fínt upp á sjálfstraustið í liðinu að enda þetta með sigri,” segir Oddur, sem verður líklega í leikmannahópnum í kvöld.
Nánar er rætt við Odd í Vikudegi.