Á hverju ári styrkir Rannsóknarsjóður síldarútvegsins fjölda góðra málefna sem tengjast fræðsluefni um sjávarútveg. Nú í apríl voru sex verkefni kynnt sem hlutu styrki að þessu sinni og er þeim ætlað að auka öryggi, þekkingu, áhuga og miðlun vandaðra upplýsinga um sjávarútveg. Starfsmenn Háskólans á Akureyri koma að tveimur af sex verkefnum sem fengu styrk að þessu sinni og eru það Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við kennaradeild, og Hörður Sævaldsson, lektor við auðlindadeild.
Verkefnið sem Brynhildur leiðir hlaut styrk sem nýttur verður til að útbúa gagnvirkt spjaldtölvuforrit um lífríki sjávar við Ísland. Markmiðið með verkefninu er að smíða notendavænt og aðgengilegt netforrit sem nýtist við kennslu í náttúrufræði í grunn- og framhaldsskólum. Afurðin verður þó ekki bara námsgagn heldur líka skemmtilegur leikur sem almenningur getur spreytt sig á hvar sem nettenging og snjalltæki fara saman. Umfjöllunarefnið verður lífríki sjávar í víðum skilningi; fiskar, sjávarspendýr, hryggleysingjar, fjörulíf og sjávarútvegur.
Hörður kemur að verkefninu Öryggi í fiskvinnslu – „Öryggi er allra hagur“ sem Hilda Jana Gísladóttir sjónvarpsstjóri N4 leiðir í samvinnu við Vinnueftirlitið. Öryggismál eru ofarlega á dagskrá fiskvinnslunnar, enda um að ræða stórt hagsmunamál. Framleidd verða 8-10 hnitmiðuð myndbönd sem ætlað að vera fræðandi og benda á mikilvægi þess að allir sem koma að framleiðslu sjávarafurða séu meðvitaðir um mikilvægi öryggis á vinnustað. Tekin verða fyrir fjölmörg atriði í fiskvinnslu á borð við vinnuvernd, vélar og færibönd, lyftara, meðferð efna, líkamsbeitingu, umhverfisþætti, félagslega og andlega þætti, fiskikör, hnífa og frystiklefa. Myndböndin verða þýdd á pólsku og ensku. (unak.is)/EPE