Bryndís Rún íþróttamaður Akureyrar árið 2010

Bryndís Rún Hansen sundkona úr Óðni er Íþróttamaður Akureyrar 2010, en kjörinu var lýst í hófi í Ketilshúsinu fyrr í kvöld. Þetta er annað árið í röð sem Bryndís verður fyrir valinu. Alls voru 15 íþróttamenn tilnefndir af aðildarfélögum ÍBA. Í öðru sæti varð handboltakappinn Oddur Gretarsson frá Akureyri Handboltafélagi og Jón Benedikt Gíslason íshokkímaður hjá SA varð þriðji.

Bryndís á glæsilegt ár í sundinu að baki. Hún vann þrjá Íslandsmeistaratitla og hún er tvöfaldur Íslandsmethafi og fjórfaldur stúlknamethafi. Bryndís vann sér inn keppnisrétt fyrr á árinu á fyrstu Ólympíuleika ungmenna sem fram fóru í Singapore í ágúst 2010. Þá vann hún sér inn keppnisrétt á EM25 ( Evrópmeistaramóti í 25m laug) í Eindhoven í Hollandi í nóvember með A landsliði SSÍ.

Bryndís Rún, 17 ára, var ekki viðstödd athöfnina í kvöld þar sem hún er farin til Noregs þar sem hún hyggst dvelja næstu tvö árin og stunda nám í íþróttaskóla, auk þess sem hún mun æfa sund af kappi með Bergensvømmerne.

Nýjast