Athugasemdir Umhverfisstofnunar lúta að sýrustigi (pH-gildi) í afrennsli verksmiðjunnar, tilkynningarskyldu í þeim tilvikum þegar afrennsli fer út fyrir settt mörk og símælingum. Frestur fyrirtækisins til að skila Umhverfisstofnun áætlun um úrbætur er veittur til 4. apríl næstkomandi. Brugðist verður við með eftirfarandi aðgerðum:
1.
Samkvæmt útgefnu starfsleyfi Becromal skal sólarhringsmeðaltal sýrustigs (pH-gildi) í afrennsli verksmiðjunnar vera 6,5-9,5. Sveiflur hafa reynst vera í pH-gildi afrennslisins þannig að pH-mæligildin hafa slegið bæði undir þessi mörk og yfir þau. Með breytingum á búnaði og breyttu vinnulagi verður tryggt að afrennsli verksmiðjunnar verði jafnað og ætíð innan þessara marka. Þessi vinna er nú þegar hafin. Rétt er að taka fram að umrætt afrennsli er vegna þrifa tækjabúnaðar en ekki vegna framleiðslunnar sjálfrar. Afrennsli verksmiðjunnar er tengt fráveitukerfi Akureyrarbæjar og fer því ekki beint í sjó.
2.
Stjórn Becromal Iceland ehf. mun hafa daglegt eftirlit með framvindu úrbóta þeirra athugasemda sem bárust frá Umhverfisstofnun.
3
Fram fari úttekt á öllum öryggs- og umhverfisþáttum aflþynnuverksmiðju fyrirtækisins í Krossanesi við Akureyri. Að þessu verkefni komi til þess bærir rannsóknar- og fagaðilar. Úttektin innifeli meðal annars í sér sýnatöku í sjó í nágrenni verksmiðjunnar, úttekt á verkferlum og tækjabúnaði í verksmiðjunni og öðrum þeim þáttum sem tryggi að starfsemi verksmiðjunnar sé á hverjum tíma í samræmi við útgefið starfsleyfi.
Stjórn Becromal Iceland ehf. ítrekar hér með áherslu fyrirtækisins á að vinna með fagaðilum og hagsmunaaðilum að úrbótum þeirra vandkvæða sem starfsemin hefur átt við að etja, segir í fréttatilkynningu.