Brimnes RE landar á Akureyri

Brimnes RE, hinn nýi og glæsilegi frystitogari Brims hf., kom inn til löndunar á Akureyri í morgunsárið, úr sínum fyrsta túr. Að sögn Reynis Georgssonar skipstjóra stóð túrinn yfir í mánuð og var togarinn á veiðum allt í kringum landið. Alls landar togarinn um 530 tonnum af afurðum og er afli upp úr sjó um 700 tonn. Aflinn er blandaður, grálúða, þorskur, ýsa og ufsi.

Um borð í Brimesi er gert að aflanum, hann hausaður og frystur. Eins og fram kom í Vikudegi í gær, verður um helmingur aflans þýddur upp til vinnslu í landvinnslu ÚA á Akureyri og er hér um mjög spennandi tilraun að ræða. Ef vel tekst til er hér hugsanlega komin ný vinnslutækni, sem gæti þýtt að frystitogarar fari almennt að koma með afla til vinnslu í landi. Reynir skipstjóri sagði að þessi fyrsta veiðiferð hefði gengið mjög vel, fyrir utan smá stirðleika í byrjun. „Þetta er alveg fantaskip, mjög öflugt og fer vel með fólk," sagði Reynir en í áhöfn eru 18 manns. Brimnes heldur á ný til veiða í kvöld og þá með nýrri áhöfn. Aðspurður sagði Reynir að nokkrir Akureyringar væru í áhöfn skipsins, m.a. þrír vélstjórar og 1. stýrimaður. Sjálfur er Reynir af Snæfellsnesinu.

Gunnar Arason, yfirhafnarvörður á Akureyri, mætti á bryggjuna í morgun og færði Reyni að gjöf skjöld með mynd af Akureyri, frá Hafnasamlagi Norðurlands.

Nýjast