Sveitarstjórn Norðurþings hefur á undanförnum árum barist fyrir auknum byggðakvóta og sértækum byggðakvóta til Raufarhafnar. Bókanir þess efnis hafa reglulega verið sendar til þingmanna, ráðherra og Byggðastofnunar.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar var málefni brothættra byggða á dagskrá og m.a. til umfjöllunar samdráttur í úthlutun á sértækum byggðakvóta til Raufarhafnar. Krafa sveitarstjórnar er að sértækur byggðakvóti fyrir Raufarhöfn verði aukinn í 800 tonn en slík úthlutun myndi stuðla að atvinnusköpun á svæðinu, auka tekjur og verðmætasköpun, stuðla að byggðafestu, styrkja innviði og fjárfestingu og vera stuðningur við smærri og staðbundin fyrirtæki enda Raufarhöfn háð hafinu.
Til upplýsinga:
Sértækur byggðakvóti er sérstök úthlutun aflaheimilda (kvóta) sem er ætluð til að styðja við sjávarbyggðir með veikara atvinnulíf og fólksfækkun, til að tryggja byggðafestu og stuðla að því að atvinnustarfsemi haldist.
Almenni byggðakvótinn sem Raufarhöfn fær er 164 tonn ár hvert.
Hámarks úthlutun almenna byggðakvótans til einstakra byggðarlaga er 285 tonn en Raufarhöfn hefur reglulega hlotið skerðingu á úthlutun og fær núna 164 tonn.
Sértæki byggðakvótinn til Raufarhafnar var áður um 500 tonn þegar verkefnið um sértæka úthlutun byrjaði en hefur reglulega verið skertur og er nú kominn niður fyrir 430 tonn.
Barátta sveitarstjórnar Norðurþings fyrir málefninu heldur áfram til að tryggja störf á Raufarhöfn, auka tekjur og viðspyrnu og styðja við samfélagið í víðum skilningi.