Bandarísk kona gefur Krulludeild SA 1,2 milljónir

Hallgrímur Valsson og Gwen Krailo/mynd Sigurgeir Haraldsson
Hallgrímur Valsson og Gwen Krailo/mynd Sigurgeir Haraldsson

„Þetta er virkilega vegleg gjöf og sýnir góðan hug,“ segir Hallgrímur Valsson formaður Krulludeildar Skautafélags Akureyrar, en í lokahófi alþjóðlega krullumótsins, Ice Cup sem fram fór um liðna helgi færði einn gestanna, Gwen Krailo deildinni 10 þúsund dollara, jafnvirði 1.160.000 króna. Gjöfina getur krulludeildin innleyst þegar hún fær aðstöðu til að leika íþróttina.

Um 70 keppendur tóku þátt í mótinu, þar af 25 erlendir en 6 útlend lið mættu til leiks að þessu sinni. Meðal þeirra voru þrjár bandarískar konur sem komu í sjötta sinn á krullumót til Akureyrar. Ein þeirra, Gwen færði krulludeilinni peningagjöfina í lokahófinu, en hana verður að sögn Hallgríms hægt að innleysa þegar deildin fær aðstöðu til að leika krullu.

Hann segir núverandi aðstöðu því miður ekki upp á marga fiska, en deildin fær 4 tíma á viku til æfinga og það setur vexti hennar miklar skorður. Þannig sé ekki hægt að bjóða upp á unglingastarf sem er miður að sögn Hallgríms.

Sérstakt hús undir krulluiðkun er þó ekki í sjónmáli alveg í bráð, „en við höfum lengi haft augun opin og þessi peningagjöfin kemur sér vel ef hjólin fara að snúast í rétta átt,“ segir Hallgrímur, en hús sem hentar undir krulluiðkun þarf að vera 45 metra langt. „Við erum bjartsýn á að einn góðan veðurdag munum við komast í hentugt húsnæði og þessi gjöf gefur okkur byr undir báða vængi.

Við rifjum líka stundum upp að L-listinn hafði á stefnuskrá sinni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að bæta aðstæðu fyrir krullu.“

Nýjast