Það er eitt og annað rætt í nefndum bæjarins. Í einni þeirra kviknaði til dæmis sú hugmynd hvort ekki væri rétt að banna nagladekk á göngugötunni. Ég man ekki hver lagði þetta til enda ríkir trúnaður um það sem fram fer á nefndarfundum. Svo ekki spyrja mig.
Ég get þó upplýst að ég fagnaði hugmyndinni sem kom ýmsum – mér nánum – á óvart enda ég yfirlýstur nagladekkjamaður. Sannleikurinn er þó sá að ég þjáist í sífellt ríkari mæli af nagladekkja-samviskubiti. Ég sé hvernig götur bæjarins grafast niður og hvernig þær detta í göt hér og þar. Allt nöglunum að kenna er klifað á. Og ég finn til í pyngjunni, þessari stóru sem við Akureyringar eigum öll.
Jón Hjaltason
Ég studdi því bannið. En þá gerðist hið óvænta – og nú erum við mætt á fund bæjarstjórnar og þar er allt fyrir opnum tjöldum – að hörðustu andstæðingar nagladekkjanna fundu hugmyndinni allt til foráttu. Það er ekki nokkur leið að framfylgja slíkri reglu, fullyrtu þeir. Fótafúnum væri líka gert erfiðara um vik að heimsækja miðbæinn.
Nei, þetta getum við ekki hugsað okkur, var sannfæring nánast allra bæjarfulltrúanna. Jáin voru aðeins tvö og kom fyrir ekki þótt ég reyndi að útskýra samviskukvalir mínar og að mögulega yrði slíkt miðbæjar-bann til að koma mér af nöglunum. Ég er nefnilega rúntari upp á gamla mátann.