Bændur í Eyjafirði verðlaunaðir fyrir góðan árangur

Þrenn verðlaun voru afhent á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar sem haldinn var í Hlíðarbæ á dögunum. Sauðfjárræktarverðlaun hlutu Árni Arnsteinsson og Borghildur Freysdóttir í Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, Jóhann Tryggvason á Vöglum í Eyjafjarðarsveit hlaut nautgriparæktarverðlaun og hvatningarverðlaun BSE féllu þeim Ármanni Rögnvaldssyni og Jónasi Þór Leifssyni, Syðri-Haga í Dalvíkurbyggð í skaut.  

Ábúendur á Stóra-Dunhaga, Árni og Borghildur, hafa um áratugaskeið stundað skýrsluhald í sauðfjárrækt og notað niðurstöður þess markvisst í kynbótastarfinu. Búið hefur verð í fremstu röð í héraðinu hvað afurðir snertir. Jóhann hóf búskap á Vöglum árið 1985, en það telst ekki stórt á eyfirskan mælikvaraða, um 25 árskýr. Afurðir hafa á hinn bóginn verið miklar og búið í hópi þeirra afurðahæstu í héraðinu undanfarin ár, með á milli 6.000 til 7.000 kíló eftir árskúna.

Ábúendur á Syðri-Haga hlutu hvatningarverðlaun BSE að þessu sinni, en þeir hafa verið þátttakendur í átaksverkefni um nýtingu sauða- og geitamjólkur undanfarin ár. Þar hefur verið komið upp aðstöðu til sauðamjalta, en mjaltatímabilið er frá því seinnipart ágústmánaðar og fram í október ár hvert. Fjöldi áa í daglegum mjöltum þessi ár hafa verið frá 48 til 119 en þær voru mjólkaðar einu sinni á dag. 

Á búinu hafa verið framleiddir þúsundir lítra sauðamjólkur. Minnst var framleiðslan fyrsta árið og nam magnið 480 lítrum en mest var framleiðslan árið 2008, þá 1.200 lítrar. Hlutdeild búsins í mjólkurmagni á landsvísu á vegum verkefnisins hefur verið drjúg og legið á bilinu 61-82%.  Árið 2010 bættu ábúendur um betur og framleiddu jafnframt 425 lítra af geitamjólk. 

Nýjast