Bæjarráð Akureyrar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær (fimmtudag) harðorða ályktun vegna fyrirhugaðar breytingar á tollafrelsi skemmtiferðaskipa á hringsiglingum en eins og fram hefur komið í fréttum hjá okkur.stendur til að afnema tollafrelsið um næstu áramót.
Jóhanna Tryggvadóttir verkefna-og markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands hefur af þessum áhyggjur og sagði i viðtali við vefinn á dögunum ,,Það er augljóst eins og málið horfir við okkur að þetta verður skaði fyrir landsbyggðina, sérstaklega minni staði þar sem skipin skipta miklu máli fyrir samfélagið.“
Áðurnefnd samþykkt bæjarráðs er svohljóðandi..
,,Það er óásættanlegt að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum án þess að mat sé lagt á efnahagsleg áhrif aðgerðarinnar, eða að ákvörðunin byggi á langtíma stefnumótun um móttöku skemmtiferðaskipa.
Bæjarráð leggur þunga áherslu á að gildistökunni verði frestað um tvö ár á meðan sú vinna fer fram, enda gæti verið um að ræða verulega vanhugsaðan landsbyggðarskatt sem muni hafa mikil áhrif á móttöku skemmtiferðaskipa m.a. á Akureyri, Hrísey og Grímsey.“