„Þetta er mikið hagsmunamál fyrir okkur bæjarbúa á Akureyri sem eru að fara þarna um og ef þú skreppur til þess að
heimsækja ættingja eða vini í Reykjavík að þá munar þetta 28 kílómetrum,” segir Oddur Helgi Halldórsson
formaður bæjarráðs Akureyrar. Bæjarráðið lýsti yfir vonbrigðum á fundi sínum í gær með tillögur
að aðalskipulagi Húnvatnshrepps og Blönduósbæjar, en þar er ekki gert ráð fyrir að leggja megi nýjan veg um svonefnda
Svínavatnsleið (Húnavallaleið) í Austur-Húnavatnssýslu. Þessi vegur myndi stytta leiðina milli Norðausturlands og vesturhluta
landsins um tæplega 14 km og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi, skemmri aksturstíma, minni eldsneytiseyðslu, mengun, lægri flutningskostnaði og
þar með aukinni samkeppnishæfni Norðausturlands.
Oddur segir að þetta sé vafalítið eitt af stærstu hagsmunamálum fyrirtækja og íbúa á Akureyri og bæjarráð
skorar á fyrrgreind sveitarfélög að endurskoða tillögurnar. „Ég vona að þeir endurskoði þetta og geri
ráð fyrir því að þeir sjái það að það sé minna mál fyrir þá að færa þjónustuna
að veginum en láta alla umferðina fara út eftir. Blönduós hefur líka svo margt upp á að bjóða að þeir sem vilja fara
þangað gera það einfaldlega. Mér finnst hins vegar óþarfi að draga fólk þessa kílómetra sem ekki ætlar sér að
stoppa þarna við,” segir Oddur.